Fara í efni

Nýr Berlínarmúr?

Fyrir  nokkrum mánuðum héldum við fjöldafundi til að mótmæla hernaðarofbeldi og mannréttindabrotum gegn Palestínumönnum. Baráttumenn fyrir mannréttindum beina sjónum sínum nú fremur að Írak enda Palestína í skugga olíustríðs. Það er heitið á grein Sveins Rúnars Haukssonar læknis, formanns félagsins Ísland-Palestína sem birtist í Frjálsum pennum hér á síðunni í dag. Greinin er mjög upplýsandi og segir þar m.a. af áformum um að múra Palestínumenn inni í fangelsi nánast í bókstaflegri merkingu. Sveinn Rúnar talar um "nýjan  Berlínarmúr" í þessu sambandi. Fram kemur í greininni að ekkert lát er á morðum og ofbeldi af hálfu Ísraelsmanna og segir Sveinn Rúnar að heimsbyggðin sé greinilega orðin hálf dofin gagnvart þessum atburðum. " Segja má að varla sé hægt annað, einsog þessar fréttir dundu yfir áður en skuggi olíustríðsins gegn Írak féll yfir. Fólk þolir kannski ekki nema ákveðið magn af slíku þegar svo ekkert er gert til að stöðva stríðsglæpina. Nóg er til af velmeinandi yfirlýsingum yfirgnæfandi meirihluta Sameinuðu þjóðanna, en alla tilburði til að binda enda á ofbeldið hafa Bandaríkin stöðvað með neitunarvaldi hjá Öryggisráðinu."