Fara í efni

NÝLENDUSTEFNAN Í ORKUMÁLUM


Flestir virðast sammála um að illa hafi verið staðið að sameiningu Reykjavík Energy Invest (REI), dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur og Geysis Green Energy. Margir telja reyndar að þessi sameining hafi ekki átt sér stað því allt ferlið hafi verið ólöglegt. Á þetta mun reyna fyrir dómstólum.
Flestir virðast líka sammála um að svokallaðir kaupréttarsamningar þar sem tilteknum einstaklingum var heimilað að kaupa hlutabréf í hinu nýja fyrirtæki á hagstæðum kjörum hafi verið vafasamir svo ekki sé fastar að orðið kveðið.
Deilur rísa á hinn bóginn þegar kemur að þeim mörkum sem einkavæðingu orkugeirans skuli sett. Í Silfri Egils í dag lýsti Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra og Samfylkingarmaður, því yfir að á prjónunum væri löggjöf sem tryggja ætti samfélagslegt eignarhald á orkulindunum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að þessi mál þyrfti að ræða í þaula en tók að öðru leyti ekki undir sjónarmið Össurar varðandi eignarhald á auðlindunum. Báðum fannst þeim sjálfsagt að sameina REI og Geysi Green. Var svo að skilja að þeim þætti þetta vera forsenda útrásar Íslendinga á þessu sviði.

Á hvaða þekkingu þurfum við að halda?

Þessu sjónarmiði var ég algerlega ósammála. Hér þarf  fyrst og fremst að hafa í huga hvar sérþekking manna liggur og hvernig eigi að nýta hana. Í OR starfa 600 manns. Þessi hópur og forverar þeirra hafa fært okkur, með sínu starfi, allt það sem stofnunin hefur upp á að bjóða. Sérþekking sem þetta fólk býr yfir þykir öðrum þjóðum, sem hafa yfir að ráða svipuðum auðlindum og við, svo eftirsóknarverð að óskað er eftir samstarfi. Framfarirnar á þessu sviði eru verk þessa fólks. Auðlindirnar, sem það sýslar með eru síðan hin efnislegu verðmæti, Hellisheiðin, Nesjavellir og svo framvegis. Nú hafa verið kynntir til sögunnar fjárfestar og peningamenn, sem einnig eru sagðir búa yfir sérþekkingu. Þeirra sérþekking felst í því að kaupa og selja eignir. Þeir vita ekkert um orkumál og búa ekki yfir sérþekkingu á því sviði. Hlutabréfamarkaðinn þekkja þeir hins vegar út og inn. Þurfum við á þeirra sérþekkingu að halda til útrásar? Svarið fer eftir því hvað við ætlum okkur. Er markmiðið að efna til samstarfs við aðrar þjóðir eða er markmiðið að komast yfir eignir þeirra? Ef hið síðara á við kæmi sérþekking peningamannanna að notum. Annars ekki.

Fjármálamenn grafa undan markmiðum SÞ og skaða íslenska hagsmuni

Mín skoðun er sú að við höfum ekki þörf fyrir sérþekkingu fjármálamannanna. Ég geng reyndar lengra því ég tel að aðkoma þeirra sé beinlínis hættuleg. Á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur undanfarin misseri verið unnið mikið starf sem tengist nýtingu vatns og orku, einkum í þróunarríkjunum. Þetta starf hefur tengst UNCTAD ( United Nations Conference on Trade and Development) en það er stofnun sem sett var á laggirnar um miðjan 7. áratug síðustu aldar og hefur í seinni tíð verið að sækja í sig veðrið með því að standa fyrir margvíslegum framkvæmdum. Nefnd kennd við Kofi Annan, fyrrum framkvæmdastjóra SÞ, hefur einnig komið við sögu hvað varðar leiðir til að hjálpa þróunarríkjunum að nýta auðlindir sínar og tengist það þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Í þessu starfi hefur verið lögð áhersla á að einkavæðing á þessu sviði hafi brugðist og sé því mikilvægt að efna til samstarfs við opinbera aðila. Í ráði er að veita fjármagni til slíks. Þarna gætu Íslendingar látið gott af sér leiða. Við myndum að auki hafa af þessu mikinn hag. Hann væri fólginn í því að tengjast rannsóknum og koma að framkvæmdum víðs vegar um heim. Vísindamenn okkar fengju vinnu við slík verk og styrkur okkar ykist. Þetta yrði raunverulegur ávinningur fyrir íslenskt samfélag til langs tíma litið. Í þessu eru hagsmunir þjóðarinnar fólgnir.
Aðkoma fjármálamannanna gengur þvert á þetta. Hún miðar að því einu að skapa þeim hagnað og helst að ná auðlindum annarra undir sig. Þetta er ný-nýlendustefna. Hugmyndin er á sú að við verðum hinir nýju nýlenduherrar, nokkuð sem þó gæti snúist upp í andhverfu sína!

Gætum hæglega orðið nýlenda

Það sem er alvarlegra er svo hitt að þegar sjálfar auðlindirnar eru tengdar fyrirtækjum, sem seld eru á markaði, getur það hæglega gerst að hver sem er, hvar sem er í heiminum, geti eignast "okkur", land okkar og auðlindir þjóðarinnar. Um leið og fyrirtæki er komið á markað getur eignarhaldið farið hvert sem er, Washington, London, Pétursborgar eða Shanghai. Þar hafa menn um annað að hugsa en hagsmuni íslenskra vísindamanna. Þannig gæti það hæglega gerst að við yrðum ekki nýlenduherrar heldur nýlenda. Við hefðum það verkefni að vinna fyrir fjölþjóðakapitalið sem auk þess ráðskaðist með auðilndir okkar. Einkavæðingarfólkið í Stjórnarráðinu og Ráðhúsi Reykjavíkur er að færa okkur út á þessar brautir. Það verður að stöðva þetta fólk.

Silfur Egils frá í dag er HÉR