Fara í efni

NÝJAR ÁHERSLUR

DV -
DV -

Birtist í DV 04.02.
Það er sagt að það sé erfitt að snúa olíuskipi. Taki langan tíma. Ætli hið sama eigi ekki við hvað varðar þjóðfélag. Þegar því hefur verið stýrt samkvæmt sama kompás í nær tvo áratugi þá verði snúningurinn hægfara. Og þó. Sitthvað finnum við sem nú höfum tekið sæti í nýrri ríkisstjórn að hægt er að gera með hraði. Það er til dæmis hægt að temja sér ný vinnubrögð.

Meira lýðræði

Ein höfuðkrafan sem reist hefur verið á fjöldafundunum að undanförnu snýr að lýðræðinu. Önnur krafa lýtur að upplýsingum og gagnsæi. Á hvoru tveggja hefur nýmynduð ríkisstjórn ákveðið að taka. Þannig hefur verið ákveðið að leggja fram frumvarp um breytingu á kosningalöggjöfinni sem opnar þá leið að kjósendur raði sjálfir á lista. Í stað þess að eiga þann möguleika einan eins og nú er að stroka einstaka frambjóðendur út og sýna þannig vanþóknun sína gætu kjósendur nálgast málið á jákvæðari hátt og forgangsraðað listann að eigin skapi. Þetta yrði mikil breyting frá því sem nú er.

Upplýst um „hin stærri mál"

Hvað leyndina áhrærir hefur mér þótt gott að hlýða á nýjan viðskiptaráðherra Gylfa Magnússon útlista áherslur sínar um mikilvægi þess að aflétta þeirri leynd sem hvílt hefur yfir fjármálakerfinu. Þetta er í fullu samræmi við áherslur sem fram hafa komið í þjóðfélaginu á undanförnum vikum enda fullt samræmi á milli orða Gylfa Magnússonar í míkrófóninn á Austurvelli og nú sitjandi í Stjórnarráði Íslands. Á undanförnum árum hefur sá sem þetta ritar margoft flutt þingmál um að aflétta hvers kyns leynd í fjármálakerfinu. Vonandi heyrir það sögunni til að bankastjórar réttlæti stórfellda fjármagnsflutninga í skattaparadísir á Ermarsundi og í Suðurhöfum á þá lund að  eðlilegt sé að menn vilji hafa sín „stærri mál" út af fyrir sig!

Samvinna í stað samkeppni

Stóra breytingin með nýjum áherslum við stjórn þjóðarskútunnar mun koma í ljós eftir því sem tíminn líður. Menn lögðu á sínum tíma upp í för með „samkeppni" að leiðarljósi sem í reynd varð fákeppni, einokun og auðsöfnun á fárra manna hendur. Auðvitað getur samkeppni stundum átt rétt á sér og blásið fólki kapp í kinn. En staðreyndin er hins vegar sú að mestu framfarir 20. aldarinnar - þegar grunnur var lagður að velferðarsamfélagi samtímans og stórstíg skref mannkynssögunnar urðu á sviði hvers kyns tækni og nýjunga - byggðu fyrst og fremst á samstilltu félagslegu átaki. Peningafrjálshyggjan sagði þessari samvinnuhugsun stríð á hendur. Þannig vildi Margrét Thatcher, járnfrúin breska, „virkja græðgina". Íslensk útgáfa Sjálfstæðisflokksins á þessu boðorði þegar hann komst til valda í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar var að „virkja eignagleðina."

Bakreikningar „eignagleðinnar"

Það má með sanni segja að ýmsir hafi glaðst yfir eignum sínum undangengin ár. Vandinn er sá að þegar þeir hverfa sjónum, birtast hinum eignalausu reikningar í formi yfirgengilega skuldaklyfja um mörg ókomin ár. Viðfangsefnið nú er að þrífa upp eftir hina „eignaglöðu" og reyna eftir því sem nokkur kostur er, að varðveita það sem best er í grunnstoðum velferðarsamfélagsins. Augljóst er að hefði Sjálfstæðisflokkurinn farið áfram með völdin á Íslandi hefði hann að öllum líkindum haldið uppteknum hætti og jafnvel notað kreppuna til að einkavæða velferðarþjónustuna og bjarga þannig sínum vildarvinum. Þeir horfa nú með skelfingu til þess að geta orðið þurrbrjósta um skeið.