Fara í efni

NÝJA SAMVINNUSTEFNAN AÐ KOMAST Í FRAMKVÆMD

Fyrir fáeinum mánuðum boðaði ríkisstjórnin með Framsóknarflokkinn í broddi fylkingar nýja “samvinnustefnu” í samgöngumálum. Hún gengur út á að gefa fjárfestum kost á að græða á umferð um vegi landsins. Hornafjarðarbrú er nú að fara í útboð samkvæmt þessari formúlu sem reyndar er ekki nýrri af nálinni en svo, að víða þar sem fjárfestar hafa undirtökin í þjóðfélaginu nýta þeir pólitíska handlangara sína til að færa sér auðfenginn gróða úr vösum skattborgara. Á ensku er þetta kallað PPP, Public Private Partnership, og þykir hafa reynst fjárfestum vel en almenningi þeim mun verr.

Fyrir þá sem ekki muna voru Vaðlaheiðargöngin kynnt sem sjálfbær einkaframkvæmd sem ekki myndi kosta hið opinbera svo mikið sem einn túskilding. Kostnaðurinn yrði innheimtur úr vösum vegfarenda með milligöngu hins sjálfstæða félags. Það eina sem staðist hefur er að vegfarendur hafa fengið að blæða en það hafa skattgreiðendur líka fengið að gera og áttu þeir þó hvergi að koma nærri. Það væri skemmtileg tilbreyting ef fjölmiðlar færu að líta á þetta bókhald nú þegar okkur er sagt að “samningsaðilar” Hornafjarðarbrúar komi til með að taka áhættuna af verkinu, “ef það má orða það þannig, og fjármögnun.”

Þannig mælist vegamálastjóra í viðtali við vísi.is https://www.visir.is/g/20212125331d

„Ríkið er að leggja þarna til tvo og hálfan milljarð. Og við bjóðum þetta verk út fullhannað en gerum ráð fyrir að samningsaðilinn taki áhættuna af verkinu, ef það má orða það þannig, og fjármögnun.“

Mikið sakna ég þeirra sem báru fram gömlu samvinnustefnuna í Framsóknarflokknum. Þá sakna ég þess einnig að á Alþingi væru stjórnmálaflokkar sem stæðu vinstri vaktina, þá vakt sem gætir hagsmuna almennings, ef það má orða það þannig.