Fara í efni

NÝ FRAMTÍÐ MEÐ DRÍFANDI FÓLKI

1. maí 2014 - 2
1. maí 2014 - 2


Ýmsir ráku eflaust upp stór augu þegar DV og Eyjan fleyttu þeirri hugsun að ég kynni að vera á leiðinni í forsetastól ASÍ. Sjálfur rak ég upp stór augu!

Um þetta spannst talsverð umræða á samfélagsmiðlum og fór því fjarri að þar væru allir neikvæðir. Þvert á móti.

Það merkilega við þessa umræðu er ekki mín persóna heldur sú staðreynd að aldur virðist ekki vera það fótakefli, sem ætla mætti. Sjálfum eru það mér að vísu engin ný sannindi, hef aldrei sett aldur fyrir mig gagnvart öðrum fremur en kynferði.

Hins vegar horfi ég nú vonaraugum til yngri kynslóðar sem mér virðist vera að takast að virkja þann kraft sem býr í almennu launafólki - sjálft síðan borið fram af þeim sama drífandi krafti.

Ef þessu fólki tekst að blandast reynslumiklu baráttufólki hreyfingarinnar - gleymum því ekki að þar er margt öflugt fólk -  verður til það sem kalla má góður kokteill.

Með baráttuglatt fólk við stjórnvölinn í verkalýðshreyfingunni með raunverulega jarðtengingu inn í veruleika láglauna-Íslands, mun fara að rofa til í landinu, misréttinu verður þá sagt stríð á hendur og velferð allra sett í öndvegi.

Þá verður gaman að lifa fyrir okkur öll - ung og gömul, karla og konur - líka okkur sem höfum tekið okkur bólfestu í grasrótinni.

Sjá pistil DV/Eyjunnar: http://eyjan.dv.is/eyjan/ordid/2018/06/20/verdur-ogmundur-forseti/