Fara í efni

NÚBO ÚR SÖGUNNI - HVAÐ SVO?

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ
Birtist í DV 16.12.14.
Kínverska auðkýfingnum Huang Núbó tókst á að koma sér á blöð Íslandssögunnar þótt áform hans yrðu aldrei að veruleika. En svo ævintýraleg voru þessi áform að þau hlutu að vekja athygli. Hann vildi eignast - og ef hann fengi ekki að eignast - þá fá yfirráð yfir hinni risastóru jörð Grímsstöðum á Fjöllum. Þar kvaðst hann ætla að reisa stórt hótel og auk þess eitt hundrað smáhýsi, leggja flugbraut að ógleymdum golfvelli sem hann vildi hafa þarna í túndrunni.

Offjárfesting og stórveldapólitík

Gagnrýni kom fram úr ýmsum áttum. Aðilum í hótelrekstri á svæðinu, sem sjálfir standa í uppbyggingu leist illa á, töldu að um hættulega offjárfestingu gæti orðið að ræða, sumir töldu Núbó vera að sækjast eftir landi til að veðsetja heima fyrir svo hann fengi aðgang að lánsfé í kínverskum bönkum, sviðin jörð svikinna gylliboða af svipuðu tagi annars staðar bæru þessu vott; þá var á það bent að auðmaður í Kína gæti eðli máls samkvæmt aldrei þrifist án velvilja stjórnvalda og hlytu menn að spyrja um tengslin við hagsmunagæslu Kína og við heimspólitíkina almennt  - með öðrum orðum, menn hlytu að hugleiða hvort kínverska ríkið væri að verða sér úti um aðgang að Íslandi.

Eignarhaldið á að vera á Íslandi!

Hvernig sem á málin var litið var ég andvígur því að heimila þessa fjárfestingu og taldi öll framangreind rök eiga nokkuð við að styðjast. Þyngst vó í mínum huga að eignarhald á landi ætti að hvíla innan þess samfélags sem landið byggir. Þá er grunvallaratriði að hálendi Íslands sé varið fyrir óeðlilegum ágangi misviturra fjárfesta sem auðveldlega geta valdið stórtjóni með framkvæmdum sem spilla heiðanna ró.
Ég tel með öðrum orðum, að öll sú gagnrýni, sem að framan er vitnað til og varnaðarorðin  sem af henni spruttu, eigi fyllilega rétt á sér og fagna ég því nú sérstaklega af þeim sökum að sveitarstjórnarmenn sem voru ginkeyptir fyrir gylliboðunum frá Kína skuli nú hafa gefið drauma sína upp á bátinn.

Vildu samfélaginu vel

Það breytir ekki hinu að fyrir þeim vakti að sjálfsögðu að láta gott af sér leiða til uppbyggingar sínu samfélagi. Og þá vaknar sú spurning hvort ríkisvaldið sem stóð í vegi fyrir þessum áformum hafi ekki einhverjar skyldur við hlutaðeigandi aðila í þessu spili öllu. Þar horfi ég ekki síst til eigenda Grímsstaðajarðarinnar sem urðu af talsverðum fjármunum sem kínverski auðmaðurinn hét að setja niður í þeirra vasa. Aðdáunarvert hefur þó verið æðruleysi þeirra flestra frammi fyrir hinum fyrirheitna auði.

Skyldur ríkisins

Reyndar tel ég að skyldur ríkisins snúi ekki síður að því að hlusta á beiðni sem fjöldi Íslendinga hefur sett fram um kaup ríkisins á Grímsstöðum á Fjöllum, þessari miklu jörð sem ásamt öðrum jörðum, sumum í almannaeign, mynda eins konar kraga um öræfi Íslands. Fólk úr öllum stjórnmálaflokkum, nánast öllum atvinnugreinum, ungt fólk og gamalt sameinaðist fyrir alllöngu síðan í áskorun til íslenskra stjórnvalda að kaupa Grímsstaði á Fjöllum.

Björk og Ólafur Stefánsson

Á meðal þeirra sem undirritað hafa þessa áskorun um að ríkið kaupi Grímsstaði á Fjöllum, má nefna Vígdísi Finnbogadóttur, Ólaf Stefánsson, handboltamann, Guðmund Gíslason, sundkappann frækna, Pétur Gunnarsson, rithöfund, Björk og Þorstein frá Hamri. Utan um þessa kröfu smíðaði Guðfríður Lilja Grétarsdóttir þingsályktunatillögu sem hún flutti undir lok síðasta kjörtímabils og hef ég síðan tvíveigis lagt þá tillögu fram, ásamt Svandísi Svavarsdóttur, á þessu kjörtímabili. Því miður afgreiddi síðasta ríkisstjórn ekki málið en vonir eru bundnar við að það nái fram að ganga á þessu kjörtímabili. Þetta mál er þverpólitískt og á einu að gilda hverjir sitja í Stjórnarráðinu. Um þetta eigum við öll að geta sameinast.

Besta þingræðan

Þegar ég talaði fyrir tillögunni í fyrra las ég upp nöfn þeirra um það bil hundrað og fimmtíu einstaklinga sem undirritað höfðu áskorunina og má segja að ræða mín hafi ekki samanstaðið af öðru en nöfnum þessa góða fólks. Var það mál manna að þetta hefði verið eftirtektarverðasta, ef ekki langbesta ræða sem ég hafi nokkru sinni flutt á Alþingi! Það segir allt sem segja þarf um nafnalistann á áskoruninni.
Í framhaldinu hef ég ítrekað spurt hvort ekki sé rétt að hlusta á þetta fólk og fara að óskum þess. Sjálfum finnst mér liggja í augum uppi að svo hljóti að verða gert.