Fara í efni

NÚ VERÐUR ALÞJÓÐAGJALDEYRISSJÓÐURINN GLAÐUR


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 04./05.12.21.
Þegar ég var ráðherra í ríkisstjórn fyrir nokkrum árum kom Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn í heimsókn til að leggja íslenskum stjórnvöldum lífsreglurnar í kjölfar efnahagshruns.
Hann hafði reyndar stundum komið áður með ábendingar um hvað betur mætti fara á Íslandi og var það allt á eina bókina lært. Meiri markaðsvæðingu vildi hann og aftur meiri markaðsvæðingu. Og þegar farið hafði verið að þessum ráðum varð efnahagshrun eins og menn muna. En þá var hann sem sagt mættur aftur til að ráðleggja.

Eitt er mér sérstaklega minnisstætt úr þessu síðara ráðleggingarferli og það var að ekki ætti undir nokkrum kringumstæðum að hlusta á viðhorf hins almenna starfsmanns. Þvert á móti skyldi setja hann í kalda sturtu – þannig var það orðað – til að kenna honum hver það væri sem stjórnaði og réði. Talað var um að stjórna ofan frá, top-down eins og það var kallað á ensku og alls ekki bottom-up, frá gólfinu og upp.

Og núna fæ ég ekki betur séð en nemendurnir séu orðnir fullnuma í þessari stjórnunaraðferð. Það sannfærðist ég um þegar þingflokkum og flokksráðum var tilkynnt um hvað formenn stjórnarflokkanna þriggja hefðu ákveðið að skyldi vera í stjórnarsáttmála og hverjir ættu að gegna ráðherraembættum og þá hvaða embættum. Þau sem töldu sig vera líkleg til að verma stólana biðu líkt og börnin jólapakkanna, voða spennt að vita hvaða ráðherrar þau ættu að verða. Ég fékk ekki betur skilið en að svona hefði þetta verið og því engar ýkjur.

Þetta er þó ósköp saklaust miðað við það sem fylgdi í pakkanum. Á bak við tjöld var Stjórnarráðið nefnilega tekið í holskurð, ráðuneytum sundrað og síðan einstakir þættir sameinaðir öðrum. Við höfum séð þetta áður gerast og er varla til eftirbreytni. En nú var gengið lengra leyfi ég mér að segja en nokkru sinni hefur verið gert og er ég þá að vísa til vinnubragðanna.

Þannig er menntamálaráðuneytið nánast sprengt í loft upp. Barnamálaráðherra er skyndilega kominn með framhaldsskólann á sína könnu ásamt sitt hverju öðru sem tínt hafði verið til og viti menn, menningunni hafði verið fundinn staður með viðskiptum. Og væntanlega í anda þess að Íslendingar bjargi heiminum með grænni orku  - guð forði okkur frá því - þá skulu umhverfismál nú sett undir orkumálaframleiðsluna eða trúir því einhver að forgangsröðin verði öfug hjá ríkisstjórn sem sér ekkert athugavert við að markaðsvæða andrúmsloftið og selja íslenskt fjallalloft svo menga megi áhyggjuminna suður í álfum. Það er jú skýringin á því að á mengunarbókhaldi Evrópusambandsins er að skilja að Íslendingar framleiði kjarnorku. Hér er hins vegar engan kjarnorkuúrgang að finna enda mengum við bara óbeint með þessum hætti í gegnum kvótabréf sem ganga kaupum og sölum.

En ég spyr, er virkilega svo komið að fólki þyki það vera í lagi að gerbylta stjórnsýslunni á taflborði persónulegra hagsmuna nokkurra einstaklinga sem um stundarsakir gegna áhrifastöðum í stjórnmálum? Allt umræðulaust, hælst yfir því að ekkert hafi lekið út.

Talað er um mikilvægi þess að halda vel um vinnumarkaðsmál og þá væntanlega stuðla að réttlátu og uppbyggilegu vinnuumhverfi. Er þetta leiðin? Að ráðast a vinnuumhverfi fjölda fólks, umræðulaust og án fyrirvara? Hvar eru samtök opinberra starfsmanna? Varla telja þau svona vinnubrögð sæmandi. Ef hægt á að vera að taka fólk alvarlega þá verður það að sýna fordæmi í verki og byrja í sínu umhverfi þar sem það er ráðandi, þar getur það sýnt hvernig fara ber með vald.

Getur verið að það sé flokksformennina sem hefði þurft að setja undir kalda sturtu? Eða eru það svefngenglar á Alþingi sem þurfa að vakna?

Hitt þykist ég vita að á kennarastofunni hjá AGS þyki þetta til marks um að koma sendiboða hennar til Íslands hafi ekki verið til einskis.