Fara í efni

NÚ ÞARF AÐ VANDA SIG

DV
DV

Birtist í DV 05.07.10.
Ég er ekki í hópi þeirra sem telja að efnahagsvanda þjóðarinnar eigi að leysa í dómssölum.  Að því marki sem stjórnvöld geta yfirleitt komið að málum ber að leita lausna með lögum. Þannig hefði með lögum mátt nema vísitölutengingu lána tímabundið úr gildi óðaverðbólgumánuðina í kjölfar hrunsins. Það lagði þáverandi formaður BSRB til á fundi með þáverandi oddvitum ríkisstjórnar í október 2008. Því var hafnað. Núverandi ríkisstjórn hefur einnig hafnað slíkum almennum lausnum. Ákveðið var að fara hina „sértæku" leið. Þeir sem ættu í sérstökum vandræðum skyldu fara í „greiðsluaðlögun" og teldu fólk eða fyrirtæki á sér brotið skyldu viðkomandi leita til dómstóla.

Hvað þýðir dómur Hæstaréttar?

Nú gerðist það að niðurstaða fékkst fyrir dómstólum hvað varðar gengistengd lán. Gengistengingin er dæmd ólögleg. Í framhaldinu vöknuðu frekari spurningar: Eru gengistengd  lán þá að öllu leyti ólögleg? Eða, er bara gengistengingin ólögleg en ekki aðrir þættir slíkra lánasamninga? Um þetta eru menn ekki á einu máli. Lántakendur gengistengdra lána hrósuðu sigri við nýfallinn úrskurð Hæstaréttar og töldu að lánasamningar þeirra ættu að gilda að öðru leyti en því að gengistryggingin félli út þar sem hún hefði verið dæmd ólögleg. Lánveitendur segja á hinn bóginn að gengistengingin hafi verið trygging þeirra fyrir því að lánin héldu verðgildi sínu og verði af þeim sökum að endurskoða lánasamninginn í heild sinni. Nú tala þeir um forsendubrest, nokkuð sem þeir ræddu lítið þegar bresturinn bitnaði á lántakandanum en ekki lánveitanda.

Dómstólaleiðin var valin

En hvernig á að höggva á þennan hnút? Að mínu mati er bara ein leið fær úr því sem komið er. Dómstólar verða að kveða upp úr um hvað rétt er samkvæmt þeim lögum og reglum sem gilda. Ef áður hefðu verið sett lög um hvernig farið skyldi með lán almennt í landinu - ekki bara gengistengd lán heldur allan lánastabbann við þær neyðarastæður sem sköpuðust í kjölfara bankahrunsins, væri fyrir hendi almenn viðmiðun fyrir dómstóla, sem styddist við mat löggjafans á almannahag. Þá hefði allt önnur staða verið uppi. En þessi leið var ekki valin sem áður segir. Þá er ekki um annað að ræða en fara dómstólaleiðina og láta rýna í bókstafinn.
Það breytir því ekki að ríkisvaldinu ber enn að skoða hvað hægt er að gera gagnvart skuldavandanum almennt. Upplýsa þarf um vilja ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem vakir yfir þessum málum og leggur ríkisstjórninni lífsreglurnar hvað varðar endurreisn fjármálakerfisins. Mörgum brá í brún þegar fulltrúar AGS voru mættir í fjölmiðla að segja sinn hug í þessu máli sem öðrum. Sjálfum fannst mér þetta ágætt. Á meðan AGS er hér við stjórnvölinn og heldur í spottana þarf það að vera sýnilegt en ekki leynilegt einsog hefur viljað brenna við.

Til bráðabirgða

Víkur nú sögunni að Seðlabanka og Fjármálaeftirlitinu. Í síðustu viku sendu þessar stofnanir frá sér yfirlýsingu þar sem kveðið var á um hvaða vexti ætti að reikna á gengistryggð lán eftir að dómur Hæstaréttar um ólögmæti gengistengingarinnar féll.
Ekki á að lesa meira í þessa yfirlýsingu Seðlabankans og FME en í henni er í raun fólgið. Um er að ræða leiðbeiningar til bráðbirgða eða þar til dómstólar hafa kveðið upp sinn úrskurð. Þetta kemur skýrt fram í yfirlýsingunni. Þar segir berum orðum að tilmælin séu ætluð „á meðan ekki hefur verið skorið úr um umfang og lánakjör..samninga...". Mín skoðun er sú, að þrátt fyrir þennan  fyrirvara FME og Seðlabanka, hafi það verið misráðið af hálfu þessara stofnana að gefa út tilmæli um vaxtakjör ofan í dóm Hæstaréttar.  Ef lánveitendur efast um skyldur sínar og réttmæti niðurstöðu Hæstaréttar eða telja þar eitthvað óútkljáð, eiga þeir að leita samninga við lánveitendur beint, ella fá niðurstöðu fyrir dómi. Athygli vekur að Hagsmunsamtök heimilanna hafa hvatt til þess að lagalegri óvissu verði eytt með þessum hætti. 

Hvað segir AGS?


Ríkisstjórninni ber nú að gera tvennt: Í fyrsta lagi gera allt sem hægt er til að  tryggja skjóta úrlausn mála fyrir dómstólum um þau atriði sem aðilar að lánasamningum kunna að véfengja. Ef þörf er á lagabreytingu til að stuðla að flýtimeðferð fyrir dómstólum ætti að kalla þing saman til að setja lög þar að lútandi. Þá er afleitt að ekki skuli hafa verið sett lög um hópmálsókn eins og lagt hefur verið til á þingi. Lagafrumvarp um hópmálsókn er enn í meðförum þingsins og bíður afgreiðslu. Þá ber ríkisstjórninni að láta fara fram markvissa vinnu um almennar aðgerðir í þágu skuldara. Þetta hefur aldrei verið gert eins ótrúlegt og það kann að hljóma. Skýringin kann að leynast í nafnorði: Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Fulltrúar hans koma fyrir sameiginlegan fund Efnahags- og skatta nefndar og Viðskiptanefndar í dag. Fróðlegt verður að hlýða á erkibiskups boðskap hvað þetta snertir.
Þörf er á opinni umræðu um þessi mál. Þjóðin á rétt á henni. Það er komið nóg af forræðishyggju. Nóg af pukri. Nú þarf opna umræðu og nú þurfa menn að vanda sig. Mikið er í húfi.