Fara í efni

Nú reynir á anda laganna

Í dag voru samþykkt á Alþingi lög sem námu úr gildi fyrri lög frá því í vor um eignarhald á fjölmiðlum; lögin sem forseti undirritaði ekki og virkjaði þannig stjórnarskrárvarinn málskotsétt sinn. Inn í umræðuna  hafa fléttast deilur um stjórnarskrá Íslands og má vænta mikillar umræðu í framhaldinu um ýmsa þætti stjórnarskrárinnar, þ.á.m. málskotsrétt forseta, skilyrði fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu o. fl. Stjórnarandstaðan kom fram sem órofa heild í fjölmiðlamálinu og stóð sem einn maður vörð um stjórnarskrá landsins. Í umræðunni sem framundan er munu að sjálfsögðu koma fram mismunandi sjónarmið hvað þessi efni varðar og er mikilvægt að mínu mati að sú umræða verði opin og þverpólitísk. Það væri mjög óæskilegt að mínu mati, að hún færi inn í mjög flokkspólitískan farveg. Í umræðum um stjórnarskrármálið hefur komið fram áherslumunur í afstöðu einstaklinga hvort sem þeir heyra til stjórnarmeirihluta eða stjórnarandstöðu varðandi álitamál sem tengjast stjórnarskránni. Við lokaafgreiðslu fjölmiðlamálsins á þingi í dag gerði ég grein fyrir afstöðu minni með eftirfarandi hætti:

"Enda þótt ég líti ekki á fjölmiðlamálið sem stærsta átakamál okkar samtíðar þá er það engu að síður gríðarlega mikilvægt því það hefur verið afhjúpandi fyrir valdhroka einnar ríkisstjórnar. Hún ætlaði að keyra vilja sinn í gegn hvað sem það kostaði, þvert á þjóðarvilja, þvert á lýðræðisleg og skynsamleg vinnubrögð. Ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn gafst upp fyrir sterkri samstöðu í þjóðfélaginu og sameinaðri stjórnarandstöðu. Og ekki má gleyma því að það var málskotsréttur forseta Íslands sem skipti sköpum í þessu máli. Hann virkaði. Það er grundvallaratriði. Markmiðin sem eru fest í letur í 26. grein stjórnarskrár Íslands gengu eftir. Hinn lýðræðislegi varnagli hélt. Ég hef lýst því yfir að það hljóti að vera til umræðu hvernig þeim varnagla er best fyrir komið til framtíðar og það sem meira er að þjóðinni verði búið meira frumkvæðisvald um hvaða mál skuli tekin til úrskurðar í þjóðaratkvæðagreiðslu. 26. grein stjórnarskrárinnar eins og ég skil hana er of takmörkuð hvað þetta snertir þótt hún hafi nú reynst mikilvægur varnagli í þingræðisfyrirkomulaginu og orðið til að hnekkja gerræðislegum vinnubrögðum. Það er mikilvægur árangur.
Spurt hefur verið hvort sú aðferð sem hér er beitt standist stjórnarskrá. Fram hefur komið að um það eru skiptar skoðanir innan þings sem utan. Að mínu mati getur þó enginn stutt þessa aðferð án þess að hafa þar mikilvægan fyrirvara á, því með því að fara þessa leið – með því að nema lögin úr gildi og þar með afnema tilefni þess að forseti beitti málskotsrétti - er stjórnarmeirihlutinn að taka á sig verulega siðferðilega ábyrgð. Í verki þarf hann að sýna að ekki vaki fyrir honum að sniðganga markmið stjórnarskrárinnar; hann þarf að sýna með framferði sínu að hann ætli ekki að hafa sitt fram með góðu eða illu og þannig í reynd hafa ákvörðunarvaldið af þjóðinni. Og hvernig ætti hann að bera sig að?  Hann á að setja málið á byrjunarreit, með nýrri fjölmiðlanefnd, breiðri lýðræðislegri aðkomu og rúmum tíma. Aðeins með því móti væri fyrra mál út af borðinu. Með þessum hætti yrðu settar niður illvígar deilur og þess freistað að ná niðurstöðu sem víðtæk samstaða gæti skapast um. Færi málsmeðferðin inn í slíkan farveg – hefði hún
minn
stuðning.
Stjórnarskrá er ekki bara bókstafur, hún er fyrst og fremst almenn yfirlýsing um leikreglur í samfélaginu. Nú reynir á að þær verði virtar. Nú reynir á anda laganna; þau markmið sem stjórnarskrá Íslands byggir á."