Fara í efni

Norrænir kratar eru stoltir af að hafa stundað einelti

Í flugvél fékk ég í hendur bók eftir Johan Ehrenberg, sem ber áhugaverðan titil: Sósíalisminn, vinur minn. Ekki gafst tóm til að lesa alla bókina en á nokkrum stöðum var borið niður. Er réttlætanlegt að verja lýðræðið með ólýðræðislegum aðferðum? Þannig spyr höfundur. Hann vitnar í sjálfumglaða grein, sem Sten Anderson, fyrrverandi utanríkisráðherra Svía og framkvæmdastjóri Sósíaldemokrataflokksins sænska, skrifaði í Aftonbladet 1998, eða öllu heldur, hann vitnar í ummæli hans um þesssa blaðagrein. Sten Anderson hafi verið mjög stoltur af henni. Þar hafi sagt að réttlætanlegt hafi verið að berjast gegn kommúnistum á allan hátt: Tilgangurinn hafi helgað meðalið. Sten Anderson var ekki einsamall, segir Johan Ehrenberg. Þetta hafi verið línan.

Síðan segir höfundur, Johan Ehrenberg, okkur nokkrar reynslusögur og vitnar í blaðagreinar. Hann segir frá fundi með sænskum lífeyrisþegum, í bæ á landsbyggðinni, þar sem hann hafi flutt fyrirlestur. Af hverju förum við ekki eins með nýfrjálshygjumennina og við gerðum við kommúnistana hér áður? Johan vitnar í aldraða konu á fundinum.”Þú hefðir átt að vera með okkur hér fyrr á tíð þegar við tókum kommana. Við úthýstum þeim úr hverfinu. Það var úað á þá fundum og þeim var gert lífið óbærilegt. Þeir hrökkluðust burt úr hverfinu. Hvers vegna gerum við ekki það sama við nýfrjálshyggjumennina?

Höfundur vitnar í njósnir kratanna um kommúnista í verkalýðshreyfingunni og vísar í grein í LO-tidningen í Danmörku (38-98) þar sem haft er eftir hinum þekkta danska verkalýðsleiðtoga Hardy Hansen að hann hefði getað hringt í  skrifstofu verkalýðssamtakanna og fengið upplýsingar um pólitíska afstöðu einstaklinga, sem væru í framboði í ábyrgðarstöður í hreyfingunni. Hansen hafi verið stoltur af þessu eins og Sten Anderseon. Þeir hafi með öðrum orðum talið persónunjósnir innan verkalýðshreyfingarinnar og síðan einelti og ofsóknir réttlætanlegar.

En stóð ógn af mönnunum sem voru ofsóttir? Þannig spyr Johan Ehrenberg. Niðurstaða hans er sú að svo hafi alls ekki verið. Afleiðingin hafi hins vegar verið sú að valdaapparatið styrkti sig í sessi en mörgu af allra kröftugasta baráttufólkinu var úthýst. Þegar til lengri tíma sé litið hafi þetta veikt verkalýðsbaráttuna. En það sem skelfir Johan Ehrenberg mest, og undir það skal tekið, er ekki endilega að fyrrnefndir menn hafi tekið þátt í ofsóknunum, heldur hitt að enn þann dag í dag skuli þeir vera stoltir af athæfi sínu. Það er vissulega ógnvekjandi. Hann segir þessa menn hafa talið sig vera að berjast gegn kommúnisma, en það hafi þeir gert í skugga sjálfs Lenins, sömu aðferðunum hafi verið beitt að þessu leyti.

Þetta minnir okkur á nauðsyn þess að standa jafnan vörð um opna og fordómalausa umræðu og berjast af alefli gegn hvers kyns ritstýringu og valdboði. Hættulegastir eru þeir sem telja sig hafa umboð til að hafa vit fyrir öðrum. Oftast eru það á yfirborðinu meinleysislegustu menn á hverjum tíma; fulltrúar valdsins, handhafar þess og þiggjendur. Þetta eru mennirnir sem gera allt til að halda í horfinu. Og verst af öllu er þeim við hvers kyns öfgar. Við hverju öðru væri að búast frá mönnum sem sjálfir eru hófsamir og blessunarlega lausir við allar öfgar? Það er alltaf talsvert um slíkt fólk í valdastofnunum samfélaganna. Er það ekki undarleg tilviljun hve margir slíkir menn safnast einmitt þangað?