Fara í efni

NORRÆN VELFERÐ

Sæll Ögmundur.
Nú reisa þeir einkasjúkrahús, kjánarnir. Og heilbrigðisráðherrann fagnar, og formaður heilbrigðisnefndar Alþingis brosir vandræðalega og óttast að laun heilbrigðisstarfsmanna kynnu að hækka. En hvernig eru einkaspítalarnir íslensku hugsaðir?
Menn hyggjast reisa einkaspítala. Einn í fitusog, annar í mjaðir og hné, sá þriðji í tennur. Talsmaður sameinaðra sérhagsmuna væntanlegra eigenda spítalanna er alþingismaðurinn Magnús Orri Schram og fyrrverandi alþingismaður og nafni Magnúsar hyggst græða á því að stofna sjúklingamiðlun. Og þetta er alls ekki gert til að sinna Íslendingum heldur ríkum útlendingum sem vilja láta Mörlandann lækna sig.
Maður spyr sig: Ef þeir eru svona ríkir útlendingarnir af  hverju ætli þeir kaupi sig ekki inn á bestu fitusogsklínikkina í Þýskalandi? Af hverju skyldu hinir ríku útlendingar sem vilja fá sér nýja mjöðm ferðast til fjarlægs lands, fjarri fjölskyldu og vinum, og þrælast hér í gegnum sjúkraþjálfun? Það er eitthvað í þessum hugmyndum sem gengur ekki upp.
Vonandi er það ekki Landsbankinn sem er að fjármagna innrásina, eða lífeyrissjóðirnir, og vonandi leggur ríkisstjórnin bara þennan milljarð í enduruppbyggingu hersjúkrahússins í Heiðinni, eða var hún að bæta 250 milljónum við?
 Einhver snillingurinn sagði mikilvægt að halda einkasjúkrahúsunum sér og meinti að láta þau ekki verða hluta af íslenskri heilbrigðisþjónustu. Annar snillingurinn, talsmaður almannahagsmuna, segir að einkaspítalarnir séu ekki að koma inn í íslenska heilbrigðiskerfið. Ætli hann sé að tala um eignarhaldið? Ætli einkaspítalarnir verði reknir frá Tortóla eða Mön, kannske af Íslendingum sem þangað komu undan illa fengnu fé?

Samkvæmt lögunum eins og þau eru nú njóta hinir ríku útlendingar  réttarins sem öllum er skammtaður í íslenskum lögum í öllum atriðum. Og engin lög hindra að Íslendingar geti krafist lækninga á þessum einkasjúkrahúsum.
Að sumu leyti má færa rök fyrir því að norræna velferðarstjórnin láti með afskiptaleysi sínu og amatörisma hreinsa út af Landspítalanum allt sem gæti gefið peninga og skilið hann eftir sem innantómt flak eins og einhvern Glitni eða Landsbanka. Vita menn  ekki hvað hefur verið að gerast á þessu sviði í nálægum löndum? Vita menn ekki hvernig Art Medica, tæknifrjóvgunarfyrirtækið, varð til?  Eða gera menn sér ekki grein fyrir því að með þeirri framvindu var búið til fákeppnisfyrirtæki sem ræður sjálft hver  heildarkostnaðurinn við tæknifrjóvgun er?

Fitusogssamsteypan þarf íslenska sjúklinga til að eiga 1) þjálfaða  lækna fyrir útlendinga og 2) til að jafna sveiflurnar í ríka útlendingastreyminu. Mjaðmahúsið þarf líka íslenska sjúklinga af  sömu ástæðum. Enginn útlendingur lætur lækna krukka í sér nema þá  sem eru fullþjálfaðir og öruggir í faginu.
 Heilbrigðisþjónustan er einn af megin þáttum velferðarkerfisins og  því kaldhæðnislegt að á vakt fyrsta velferðarráðherrans skuli vera lagður grunnur að tvöföldu heilbrigðiskerfi, þar sem annar hlutinn verður rekinn af tortólafyrirtækjum og vogunarsjóðum  en hinn fyrir innlent skattfé. Tvöföldu heilbrigðiskerfi sem verður svo dýrt að við hin, sem getum ekki greitt fyrir þjónustuna í Heiðinni, fáum aldrei almennilegan Landsspítala. Fyrir það munu menn minnast fyrsta íslenska, norræna, velferðarráðuneytisins. Það setur að manni kjánahroll Ögmundur.
 Kv.
Ólína