Fara í efni

NOKKUR ORÐ UM ÖRYGGI Á FLUGVÖLLUM

Flugvellir og öryggi
Flugvellir og öryggi


Atvikið á keflavíkurflugvelli skapar mér hugrenningartengsl. Þegar ég var fréttamaður Sjónvarpsins á Norðurlöndum á níunda áratugnum var ég fastasgestur á norrænum flugvöllum, einkum þeim danska því aðsetur mitt var Kaupmannahöfn.

Þá...

Þetta var fyrir daga auðveldra himintunglasendinga á sjónvarpsefni þannig að flugið var notað fyrir sendingar að uppistöðu til. Þegar ég kom á Kastrup flugvöll sýndi ég fréttamannapassa og fékk ég þá sérstakt kort í hendur og gat ég valsað út og inn um allt flugvallarsvæðið. Yfirleitt fór ég baka til þar sem farangurinn er meðhöndlaður og síðan upp á farþegasvæðið og að flugvélinni sem var á leið til Íslands. Einfalt mál.
Ekki veit ég hvernig Danir haga sínum öryggismálum nú en mér býður í grun að eitthvað sé þetta flóknara eftir að farið var að taka tannkremstúpur og vatnflöskur af farþegum og láta þá taka af sér belti og fara úr skóm í nákvæmri rannsókn áður en þeim er hleypt inn á flugvallarsvæði.

...og nú

Í þessu nýja ljósi skoða menn líka atvikið á Keflavíkurflugvelli þegar tveir menn komust inn á svæðið og upp í flugvél þar sem þeir síðan fundust. Mönnum brá í brún - að sjálfsögðu. Það á kannski helst við þá aðila sem sinna öryggismálum á svæðinu, Isavia, enda kölluðu stjórnendur þar á bæ þegar í stað lögregluna á Suðurnesjum á vettvang til að rannsaka málið. Þegar þeirri rannsókn lýkur fær Flugmálastjórn öll gögn í hendur en hún er sú stofnun sem hefur eftirlit með málefnum flugs og flugmála á Íslandi og er ábyrg gagnvart Alþjóðaflugmálastofnun.

Að axla ábyrgð

Nokkuð hefur verið spurt um það hvort og þá hver komi til með að axla ábyrgð í þessu máli og hvort einhver verði rekinn. Ég hef svarað því til að menn séu að axla ábyrgð með því að finna brotalamirnar og laga þær. Hið saknæma í málinu væri af allt öðrum toga, það er að segja ef mönnunum tveimur hefði verið veitt einhver aðstoð við að komast inn á flugvallarsvæðið. Ekkert hefur komið í ljós sem bendir til að svo hafi verið. Mér finnst að í þessu, sem reyndar öðru, sé mikilvægt að gera hvorki of mikið né of lítið úr þessu atviki. Við fengum gula spjaldið og drögum okkar lærdóma af því. Svo einfalt er það.   

Sjá frétt af vefsíðu innanríkisráðuneytis: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28150
Sjá viðtal á mbl.is (hér segi ég ranglega að lögreglan á Suðurnesjun sinni öryggisgæslunni á flugvellinum. Hið rétta er að það gerir Isavia en lögreglan hefur hins vegar komið sem rannsóknaraðli að málinu): http://mbl.is/frettir/innlent/2012/07/10/bidur_skyrslu_flugmalastjornar/