Fara í efni

NIÐURSTAÐA FENGIN Í KRAGA

Ad loknu forvali
Ad loknu forvali

Um helgina fór fram forval í Suðversturkjördæmi. Á kjörskrá voru 1174, en 488 eða 41.6% tóku þátt í kosningunni.  Ég fékk 261 atkvæði í fyrsta sæti, en Ólafur Þór Gunnarsson, sem einnig sóttist eftir fyrsta sæti fékk 201 atkvæði í það sæti. Munaði þannig á okkur 60 atkvæðum.
Í Vinstrihreyfingunni grænu framboði er ekki hefð fyrir sömu fjöldaþátttöku og tíðkast hjá ýmsum öðrum flokkum þannig að í fámenninu vegur hvert atkvæði hlutfallslega þyngra en gerist hjá öðrum.
Í Suðvesturkjördæmi var greinilegur vilji til að knýja fram breytingar og er eðlilegt að á slíkan vilja sé látið reyna. Í ljósi þeirra átaka sem nánast engin stofnun samfélagsins hefur farið varhluta af - þar á meðal pólitískir flokkar - og þar sem menn og málefni hafa verið umdeild - þá þykir mér þetta skiljanlegt.
Það virðist þó sammerkt með prófkjörum ólíkra flokka að þátttaka þykir dræm. Hins vegar eru kjörskrár flokkanna ekki endilega besti mælikvarðinn hvað það varðar, enda inni í öllum flokkum fjöldi óvirkra félaga sem sumir gengu einhvern tímann inn með það að markmiði að nýta rétt sinn til að hafa áhrif á ákveðin mál eða til að styðja einstakling eða einstaklinga í einu prófkjöri.
Í forvali VG þótti mér gott og uppörvandi að finna góðan baráttuvilja hjá mörgu fólki. Langar mig til að nota þetta tækifæri til að þakka fyrir þann stuðning og hlýhug sem ég fann fyrir í aðdraganda forvalsins og eftir það.
Í Suðvestur-kjördæmi, Kraganum,  höfum við nú á að skipa öflugri liðsheild og er næsta verkefnið að ganga frá endanlegum framboðslista og gera okkur klár í bátana fyrir kosningabaráttuna. Þar er verkefnið að sjá til þess að hér á landi verði við stjórnvölinn félagshyggjufólk, sem leggur áherslu á öfluga velferðarþjónustu, varðstöðu um auðlindir og gott menntakerfi í þágu almennings.