Fara í efni

Niður með Kynþáttamúrinn segir VG

Hvað hefði heimurinn sagt ef kynþáttastjórnin í Suður-Afríku hefði reist aðskilnaðarmúr eins og ísraelska ríkisstjórnin er að reisa utan um byggðir Palestínumanna? Ég leyfi mér að fullyrða að viðbrögðin hefðu orðið sterkari. Hvers vegna? Ofbeldið nú er að öllu leyti framið í skjóli Bandaríkjamanna og með, nánast þegjandi, samþykki hins ríkari hluta heimsins. Í orði kveðnu segjast margir vera gagnrýnir en þegar á reynir er engin alvara á bak við það. Þetta á til dæmis við um ríkisstjórn Íslands. Síðan er nátturlega miklivægt í þessu samhengi að kynþáttaofsóknirnar eru ekki gegn hörundsdökku fólki. Þess vegna kann það að vefjast fyrir fólki hvað raunverulega er að gerast.

Hinn 9. nóvember síðastliðinn var alþjóðlegur baráttudagur gegn múrnum þannig að heimurinn virðist vera að vakna til vitundar um kynþáttaofbeldið í Palestínu og andófið gegn honum að rísa hærra. Það var vel viðeigandi að á baráttudeginum gegn Kynþáttamúrnum skuli Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboð hafa samþykkt  eftirfarandi ályktun um mannréttindamúrinn í Palestínu:

Burt með múrinn!

Aðskilnaðarmúrinn verði rifinn og friðargæslulið sent til Palestínu

Vinstrihreyfingin - grænt framboð krefst þess að ríkisstjórn Íslands beiti sér af alefli gegn hernámi Palestínu og leggist á sveif með þeim þjóðum sem vilja að friðargæslulið á vegum Sameinuðu þjóðanna verði þegar í stað sent á vettvang til að verja saklaust fólk gegn ofbeldisverkum ísraelska hersins. Ísraelsríki hefur frá upphafi rekið útþenslustefnu, virt að vettugi mannréttindi palestínsku þjóðarinnar og beitt hervaldi sínu miskunnarlaust gegn íbúum herteknu svæðanna, jafnt börnum sem fullorðnum.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð lýsir furðu yfir því að íslenska ríkisstjórnin skuli ekki skilyrðislaust fordæma brot ísraelskra stjórnvalda gegn samþykktum Sameinuðu þjóðanna og þá kynþáttastefnu sem ísraelsk stjórnvöld reka og birtist nú síðast í hinum alræmda aðskilnaðarmúr.