Fara í efni

Neyðarlínan hf.

Birtist í Mbl
Um áramótin verður tekið í notkun nýtt númer fyrir neyðarþjónustu í landinu. Samkvæmt lögum sem samþykkt voru á Alþingi síðastliðinn febrúar er gert ráð fyrir því að þeir sem sinna öryggisþjónustu og björgunarstarfi í landinu geti átt aðild að sérstakri vaktstöð sem komið yrði upp en þaðan verði síðan beint beiðnum um aðstoð, hvort sem um er að ræða slys eða afbrot, til hlutaðeigandi aðila.

Fyrir borgarann hlýtur samræming af þessu tagi að vera jákvæð. Það er hins vegar mjög mikilvægt að rétt sé að þessum málum staðið og eru lykilhugtökin öryggi og trúnaður þegar neyðarþjónustan er annars vegar. Í greinargerð sem fylgdi lagafrumvarpinu á sínum tíma er sérstaklega fjallað um það um hve viðkvæmar upplýsingar geti verið að ræða, svo sem tilkynningar um meinta refsiverða háttsemi eða neyð sem krefjast faglegra viðbragða.

 

Bitbein fyrirtækja

Í ljósi þessa brá mörgum manninum óneitnlega í brún þegar fram kom í fréttum fyrir fáeinum dögum að fyrirtæki í öryggisþjónustu hefðu kært Neyðarlínuna hf. fyrir samkeppnisstofnun á þeirri forsendu að þau sætu ekki við sama borð og önnur fyrirtæki sem hafa eignaraðild að Neyðarlínunni hf. Með öðrum orðum: öryggisþjónusta landsmanna, það er að segja aðgangur að lögreglu og slökkviliði, hefur verið markaðsvædd og er orðin að bitbeini fyrirtækja í einkaeign.

Þetta mál er með miklum ólíkindum. Og ekki er ég einn um þá skoðun. Fyrir alþingiskosningarnar síðastliðið vor var talsvert um þetta fjallað.

 

Yfirlýsingar ráðherra

Á opnum fundi sem Landssamband lögreglumanna efndi til hinn 17. mars voru á meðal framsögumanna tveir núverandi ráðherrar í ríkisstjórn, þeir Finnur Ingólfsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Björn Bjarnason menntamálaráðherra.

Á fundinum skýrði Björn frá því að einn aðili hefði sótt mjög stíft að fá neyðarþjónustuna alfarið í sínar hendur en þeim hugmyndum hefði algerlega verið hafnað. Hann sagði að gert væri ráð fyrir víðtæku samstarfi en þar yrðu opinberu aðilarnir, lögregla og slökkvilið, í broddi fylkingar.

Finnur Ingólfsson gerði einkavæðingarhugmyndir neyðarsímsvörunar að sérstöku umræðuefni í sinni framsögu, sagði slíka þjónustu ekki eiga heima hjá „einkavinunum“ heldur eiga að vera í höndum lögreglu og slökkviliðs. Aðrir stjórnmálamenn sem töluðu á þessum fundi voru sama sinnis í þessu efni. Guðmundur Árni Stefánsson upplýsti að ástæðan fyrir því hve langan tíma hefði tekið að koma á samræmdri þjónustu væri sú að „allir hafi ætlað að gera út á þessa köku.“

 

Snertir okkur öll

Hér er um að ræða málefni sem skiptir miklu máli og kemur öllum við. Það er sjálfsagt framfaramál að samræma neyðarþjónustuna í landinu og þá með þeim hætti að einkafyrirtæki og félagasamtök komi þar að. Það er hins vegar grundvallaratriði að forsjá með slíkri þjónustu sé í höndum lögreglu og slökkviliðs, aðila sem búa yfir sérþekkingu, reynslu og síðast en ekki síst, lúta almannastjórn. Það er enginn að amast við því að einkafyrirtæki bjóði upp á öryggisþjónustu en forræði yfir neyðarþjónustu landsmanna á ekki að setja í hendur einkaðila, hversu góðir og gildir sem þeir kunna að vera og hvort sem þeir heita Slysavarnafélag Íslands, Vari, Sívaki eða Securitas.