Fara í efni

New York Times biðst afsökunar

Það er ekki á hverjum degi að bandaríska stórblaðið New York Times biðst afsökunar á eigin mistökum. Það gerðist þó í leiðara blaðsins í dag, 16. júlí. Blaðið kveðst sjá sáran eftir því að hafa ekki gagnrýnt árásina á Írak af einurð og ákveðni í stað þess að hvetja til fjölþjóðlegrar samstöðu um málið. Nú hafi komið í ljós að árásin var byggð á rangtúlkunum og ósannindum og hafi hvorki nágrönnum Íraka né heimsbyggðinni stafað sú hætta af Írak sem menn vildu vera láta.

Í hverri skýrslunni á fætur annarri, sem nú birtist vestan hafs og austan, er flett ofan af lygavefnum sem ofinn var til að réttlæta árásina á Írak og er þessi yfirlýsing New York Times merkileg fyrir þær sakir að minna okkur á að til eru þeir aðilar sem létu blekkjast en hafa þá stærð að geta viðurkennt það nú; biðjast jafnvel afsökunar eins og New York Times gerir. Aðrir reyna að skella skuldini á aðra. Það á til dæmis við um Bush Bandaríkjaforseta, sem reynir að þvo hendur sínar með því að segja bandarísku leyniþjónustuna, CIA, hafa brugðist. Þá er þriðji hópurinn sem ekkert viðurkennir og heldur áfram að berja höfðinu við steininn oft að því er virðist til að sýna ráðamönnum í Washington að þeir “bili ekki” eins og það var kallað í Sovét í gamla daga. Davíð Oddsson, forsætisráðherra Íslands, vakti heimsathygli með yfirlýsingum sínum í Washington fyrir fáeinum dögum þegar hann lýsti því yfir að innrásin í Írak hefði verið öllum heiminum til góðs; heimurinn væri nú betri og öruggari en áður. Þetta eru barnalegar yfirlýsingar og dapurleg er sú tilhugsun að við skulum kynnt um víða veröld með þessum hætti.

Leiðarinn í New York Times víkur að þeim hópi manna sem engum rökum tekur og segir: “Bandaríkjaþing hefði aldrei gefið Bush forseta heimild til að ráðast á Írak ef það hefði verið vitað að engar sannanir voru fyrir því að Írakar myndu styðja hryðjuverkamenn eða væru færir um valda okkur eða bandamönnum okkar tjóni. Margir stjórnmálamenn sem studdu stríðið með atkvæði sínu neita enn að viðurkenna mistök sín. En þeir gerðu mistök. Og jafnvel þótt lagst hafi verið gegn innrás hér í leiðaraskrifum, hryggir það okkur að hafa ekki krufið á gagnrýninn hátt þær forsendur sem forsetinn byggði á.”(Congress would never have given President Bush a blank check for military action if it had known that there was no real evidence that Iraq was likely to provide aid to terrorists or was capable of inflicting grave damage on our country or our allies. Many politicians who voted to authorize the war still refuse to admit that they made a mistake. But they did. And even though this page came down against the invasion, we regret now that we didn't do more to challenge the president's assumptions).”

sjá hér leiðarann í heild