Fara í efni

NEI STURLA, ÞETTA GENGUR EKKI !

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra skrifar í vikunni grein á ísfirska fréttavefinn bb.is. Fyrirsögn pistils samgönguráðherra er: Borað vegna jarðganga á tveimur stöðum í sumar!

Upphaf pistilsins er svohljóðandi: "Umræður um samgöngumál eru eðlilega fyrirferðarmiklar á Vestfjörðum. Sem samgönguráðherra og þingmaður Norðvesturkjördæmis hef ég beitt mér af öllu afli fyrir því að tryggja sem best fjármuni til framkvæmda við vegagerð á Vestfjörðum. Allir sangjarnir menn sjá og viðurkenna að verulegur árangur hefur náðst og hann blasir hvarvetna við. Og framundan eru meiri framkvæmdir en nokkru sinni fyrr á svæðinu. Hvað sem pólitískir andstæðingar mínir segja þá tala staðreyndir sínu máli. Þeim virðist lítt gefið um þær í aðdraganda sveitarstjórnarkosningann. Þar virðist marklaust tal og óábyrgt ráða för þeagar um samgöngumálin er fjallað. Málflutningur forystumanna Sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum er markviss, ábyrgur og þeir ná árangri með skipulögðum vinnubrögðum og traustu samstarfi við þá sem með samgöngumálin fara."

Látum vera að samgönguráðherra vilji bakka sína menn upp fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Hann getur hins vegar ekki leyft sér að nota samgönguráðuneytið sem agn í þessari baráttu. Eða hvað er ráðherrann að gefa í skyn? Að hann muni hygla sveitarstjórnum þar sem sjálfstæðismenn eru við stjórnvölinn? Á ekki að láta málefnaleg rök ráða í afstöðu samgönguráðuneytisins?  Er ráðherrann að láta að því liggja að sveitarfélög sem kjósa til áhrifa fólk sem ekki er á bandi með ráðherranum í stjórnmálaskoðunum  verði látin gjalda fyrir slíkar syndir? Þetta gengur ekki Sturla!  Þetta er misnotkun á pólitísku valdi.