Fara í efni

Neglt fyrir niðurföll – um Blair, Bush og menn okkur nær

Í vikunni sem leið hittust þeir vinirnir Bush og Blair í Lundúnum og smábænum Sedgefield í norðausturhluta Englands. Á síðarnefnda staðnum snæddu þeir félagar saman á sveitakrá. Sedgefield þótti ákjósanlegri staður fyrir afslöppuð fundahöld en Lundúnir þar sem þörf var á alvöru öryggisráðstöfunum. Ekki létu menn þó öryggismálin alveg lönd og leið í Sedgefield. Fréttablaðið segir frá: "Á annað þúsund lögreglumenn gættu öryggis Bush og Blair auk þess sem vegum var lokað fyrir umferð og neglt fyrir niðurföll, póstkassa og sorptunnur."

Ef þetta er afslappað hvað eru þá alvöru öryggisráðstafanir? Í Herald Tribune á föstudag kom fram að 14 þúsund lögreglumenn hafi verið í útkalli "til að halda uppi öryggisneti sem kostað hafi 8,5 milljónir dollara." Sú upphæð er hins vegar miklu hærri  ef rétt er sem fram kemur í grein Mariu Margaronis, eins af Lundúnaritstjórum The Nation (sjá vefslóð að neðan): " Frá því brynvarin þyrla hans (þ.e. Bush) lenti í skjóli myrkurs fyrir aftan Buckinghamhöllina, urðu Lundúnir að virki honum til varnar. Þúsundir lögreglumanna ...voru á sveimi í miðborginni og skyttur voru á húsþökum undir flugvélafríum himni. Vegir og torg höfðu verið girt af...Í blöðum birtust fréttir um að fulltrúar Hvíta hússins hefðu krafist þess að bandarískum leyniþjónustumönnum yrðu tryggð réttindi diplómata um að þurfa ekki að svara til saka ef til þess kæmi að þeir skytu mótmælendu; sagt var frá því að skotthelt gler hefði verið sett í Buckinghamhöll og leyfi fengið fyrir því að bandarískar orustuþotur og herþyrlur fengju að fljúga yfir borginni og einnig að fengist hefðu skuldbinding frá Lundúnalögreglunni að engir mótmælendur sæjust á "myndavélafæri" frá forsetanum".

Þetta er frásögn eins af ritstjórum The Nation, og vissulega kom heimsóknin heiminum svona fyrir sjónir! Bush var ekki ónáðaður af mótmælendum. Skipuleggjendur fjöldafundar, sem haldinn var á Trafalgartorgi gegn stríðsstefnu þeirra Bush og Blairs, segja að um 200 þúsund manns hafi sótt fundinn. Haft er eftir Lundúnalögreglunni að aðeins um helmingur þessa fjölda hafi verið samankominn. Hvað sem rétt er í þessu er þetta einn fjölmennasti fundur sem haldinn hefur verið gegn stefnu bresku og bandarísku ríkisstjórnanna frá því árásin var gerð á Írak.

Bush flutti ræðu í Lundúnum sem menn hafa verið að rýna í um allan heim síðustu daga. Í leiðaraskrifum í Arabaheiminun hefur verið vakin athygli á því að ekkert hafi verið minnst á hvernig tryggja ætti lýðræði í Írak og yfirráð Íraka yfir auðlindum lands síns, sbr., t.d. Jordan Times 21-22/nóv.) Þá vakti athygli hvernig Bush beindi spjótum sínum að forystumönnum Palestínumanna, sem þegar allt kemur til alls eru lýðræðislega kjörnir, og hve linkulegar umvandanir hans voru gagnvart Ísraelsstjórn sem hann gagnrýndi fyrir að reisa múr, ekki kynþáttamúr, heldur öryggismúr!

Annars virðast menn á því máli að ekkert nýtt hafi komið fram í ræðum Bush eða yfirlýsingum hans í Englandsferðinni. Enn var staðhæft að rétt hafi verið að ráðast á Írak. Bandaríkjamönnum er umhugað um frelsi og öryggi, sagði Bandaríkjaforseti og einnig um alþjóðastofnanir; það þurfti hins vegar, sagði hann, að koma í veg fyrir að hlutskipti Sameinuðu þjóðanna yrði hið sama og Þjóðabandalagsins ( League of Nations, þ.e. undanfara SÞ á millistríðsárunum), sem ekki hefði haft burði til að fylgja ákvörðunum sínum eftir með valdi. Ekki virtist Bush hafa farið nánar út í mótsagnirnar sem fram komu í máli hans því sem kunnugt er gerðu Bandaríkjamenn og Bretar árás á Írak án samþykkis Sameinuðu þjóðanna. Richard Pearl, einn helsti ráðgjafi Bandaríkjaforseta í utanríkismálum botnaði þetta hins vegar fyrir forsetann á fundi meðan á heimsókninni stóð með því að viðurkenna að árásin hefði vissulega verið ólögleg en "í þessu tilviki stóðu alþjóðalög í vegi fyrir því að við gætum gert það sem var rétt."  Í ljósi þessa er ekki að undra að Bandaríkjaforseti skuli hafa lýst sambandi þeirra Blairs sem bandalagi er byggðist "á sannfæðringu og veldi."  Þess má geta til gamans að Bush líkti Blair við Winston Churchill vegna hugrekkis hans. Í því sambandi koma upp í hugann ummæli utanríkisráðherra í landi norðvestur af Bretlandi sem kvaðst dást að Blair fyrir að hafa til að bera staðfestu og hugrekki að senda unga menn í stríð!

En það er fleira sem kemur upp í hugann sem minnir á íslensku ríkisstjórnina við þessa heimsókn Bush til Blairs og það er að forsetinn mætti ekki sjá mótmælendur og þá sérstaklega að ljósmyndarar gætu aldrei fangað forsetann á mynd með mótmælendum. Óneitanlega minnir þetta á Íslandsheimsókn forseta Kína fyrir skömmu síðan. Þá gekk maður undir manns hönd til að koma í veg fyrir að Kínaforseti sæi til mótmælenda! Vesalings mennirnir! Hvers vegna þurfa þeir að láta búa til sýndarveruleika í kringum sig? Er þetta bara spurning um öryggi hræddra manna? Eða snýst þetta líka um hroka einræðis- og  nýlenduherra heimsins?

http://www.thenation.com/doc.mhtml?i=20031208&s=margaronis