Fara í efni

NEFND HEFUR VERIÐ NEFND


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 11/12.09.21.
Samtök áhugafólks um spilafíkn minntu á sig undir vikulokin. Þau vilja vita hvernig stjórnmálaflokkarnir sem bjóða fram til Alþingis ætli að svara yfirlýstum vilja þjóðarinnar um að “söfnunarkössum” verði lokað enda séu þeir fjármunir sem „safnað“ er komnir frá tiltölulega fáum einstaklingum, sem haldnir séu fíknisjúkdómi.

Samtökin vísa í ítarlega skoðanakönnun sem Gallup gerði í maí fyrir rúmu ári en samkvæmt henni vilja  85,8 % aðspurðra láta loka spilakössum sem Háskóli Íslands, Rauði krossinn og Slysavarnafélagið Landsbjörg reka og hagnast á um háar upphæðir.

En fyrst afstaða yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar er þetta afdráttarlaus, hvernig má það þá vera að ekki heyrist meira um þetta mál? Að vísu kemur alltaf öðru hvoru í ljós að kraumar undir og stundum svo um munar.

Þannig sagði SÁÁ sig frá rekstri þessara kassa fyrr á árinu. Voru það mikil tíðindi og SÁÁ til mikils vegsauka. 

Í örðu lagi sendi Stúdentaráð Háskóla Íslands frá sér ítarlega og afgerandi ályktun í maí síðastliðnum þar sem sagði að Háskólinn ætti „ekki að hafa aðkomu að rekstri spilakassa.”

Á fjórða hundrað starfsmanna Háskóla Íslands hafa og staðfest með undirskrift sinni að þeir vilji að skólinn segi sig frá þessari starfsemi. Mér er tjáð að stöðugt bætist á þann lista. Rektor skólans gat ekki annað en brugðist við bæði Stúdentaráði og starfsmönnum og setti málið í nefnd. Sú nefnd er enn að störfum eftir því sem best er vitað.

Slysavarnafélagið Landsbjörg ræddi málið á þingi sínu nýlega. Ákveðið var að skora á dómsmálaráðherra að ráðast í endurskoðun á reglum og lögum sem snerta rekstur peningaspila og verði að horfa til þeirra sem haldnir eru spilafíkn við þá endurskoðun. Ég fylgdist á netinu með því þegar þessi mál voru rædd og reifuð á landsþinginu. Endahnútinn á umræðuna rak fulltrúi frá hjálparsveit skáta í Reykjavík. Hann sagði að brýnt væri að finna nýja tekjustofna fyrir samtökin, en Slysavarnafélagið Landsbjörg ætti að segja sig sem fyrst frá rekstri spilakassa og botnaði með því að segja: „Ég held að við ættum líka að gera okkur grein fyrir því að mjög stór ef ekki stærstur hluti af innkomunni fyrir spilakassana kemur frá spilasjúklingum, en ekki þeim sem spila einstaka sinnum sér til gamans."

Á fundarstjóra landsþingsins var að skilja að málið myndi á næstunni fá áframhaldandi umræðu innan samtakanna. Það hefði verið sett í nefnd fyrir þingið og myndi nefnd áfram fjalla um málið.

Sem sagt, SÁÁ eru stigin út úr kasínórekstri. Slysavarnarfélagið Landsbjörg með málið í nefnd svo og Háskóli Íslands.

Og ekki má gleyma ríkisstjórninni. Hún treysti sér ekki til að taka á málinu en setti það þó í nefnd sem átti að “að kanna mögulegar réttarbætur á sviði happdrættismála.” Heldur þótti þetta lélegt svar stjórnvalda við kröfu almennings en bót var þó í máli að dómsmálaráðherrann sem skipaði nefndina sagði að hún myndi skila tillögum í byrjun júní. Það er að segja í júní síðastliðnum. Ekkert bólar á nefndarálitinu og er þó kominn september.

Síðan voru það þau sem enga nefnd þurftu til að komast að lofsverðri niðurstöðu. Hér er vísað til hjóna sem ráku veitingastað í Þorlákshöfn og högnuðust vel á rekstri spilakassa sem þau starfræktu í umboði Rauða krossins og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á veitingastað sínum. Þau græddu á tá og fingri á kössunum en lokuðu samt! Sögðust hafa séð óhamingjuna sem væri fylgifiskur þessara spilavéla.

Fréttir bárust af fleiri aðilum sem brugðust við ákallinu um lokun með þessum hætti. Létu á móti sjálfum sér en stóðu með samvisku sinni.

Og fyrst minnst er á samviskuna má ekki gleyma þeim rekstraraðilanum sem lítið gefur fyrir siðferðistalið. Rauði kross Íslands telur sig ekki einu sinni þurfa á nefnd að halda um sína samvisku.

Er þá komið að máli málanna. Hvernig skyldu framboðin til Alþingis ætla að svara spurningu Samtaka áhugafólks um spilafíkn? Styðja þau lokun spilakassa eða gera þau það ekki? Já eða nei.

Heyrst hefur að einhverjir flokkanna hyggist setja nefnd í málið.

Það er þó alla vega skref í áttina að nefnd skuli vera nefnd.