Fara í efni

NAUÐSYNLEGT UPPNÁM

Fjöldafundur
Fjöldafundur

Umræðan um kjaramálin heldur áfram, sbr. á Rás 2  hjá RÚV í morgun þar sem við Ragnheiður Ríkarðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins ræddumst við. En fyrst kom Þorsteinn Pálsson og vildi lög á þá forstöðumenn hjá ríkinu sem eru með eina til eina og hálfa milljón á mánuði. Sjálfur er hann með tæpar eina komma átta! Síðan steig forseti Alþýðusambandsins, Gylfi Arnbjörnsson, fram og setti umræðuna í réttan farveg. Kjararáð, sem ákvarðar laun ríkisforstjóra, á lögum samkvæmt að byggja á launaþróun á almennum markaði, sagði hann, og á jafnframt að hafa hliðsjón af forstjóralaunum þar. Því næst kom fjármálaráðherrann, Bjarni Benediktsson, í fjölmiðla og sagði að kjaraþróun forstjóra væri að setja allt í uppnám og væri það illt.

Hvað er illt?

En það er kjaramisréttið sem er illt en ekki uppnámið. Að undanförnu hafa Frjáls verslun og DV birt okkur upplýsingar um kjör ýmissa einstaklinga og hópa í samfélaginu. Þessar upplýsingar hafa valdið talsverðu  uppnámi.  Að mínu mati er þetta uppnám af hinu góða og heilbrigðisvottur fyrir samfélagið. Vonandi láta lágtekju- og millitekjuhópar samfélagsins  stjórnendur  ekki ná því fram að auka enn á misréttið í landinu. Við því megum við ekki. Talsmenn ríkisstjórnarinnar sem hafa blandað sér í þessa umræðu hafa sumir vakið máls á því að æskilegt væri að stofna til þjóðarsáttar svipað og gert var árið 1990 þegar víðtæk sátt varð á kjaramarkaði að koma böndum á óðaverðbólgu og vaxandi atvinnuleysi meðsáralitlum launabreytingum.

Þjóðarsátt um misrétti?

En hverjar væru forsendur nýrrar þjóðarsáttar?  Að mínu mati þyrfti margt að breytast til að hægt væri að koma á víðtækri þjóðarsátt á vinnumarkaði. Þannig gengur það ekki upp í mínum huga að létta milljörðum af sjávarútvegsfyrirtækjum og þar með afsala velferðarkerfinu miklum fjármunum og eins ferðaþjónustunni , þeim atvinnugreinum sem eru helst aflögufærar, koma síðan og ræða þjóðarsátt við fólk sem er með á bilinu tvö hundruð til sex hundruð þúsund krónur á mánuði og miklar skuldaklyfjar og þung útgjöld!

Frekar ellefu hundruð milljónir í arðgreiðslur en í vasa starfsfólks heilbrigðisþjónustunnar

Eða á hvern hátt á Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum - sem var að greiða eigendum sínum yfir einn milljarð króna í arð - eitt hundrað milljónum króna betur  - að taka þátt í þjóðarsáttarátaki ríkisstjórnarinnar? Þetta er nefnilega sama ríkisstjórnin og ákvað að frekar fengju eigendur Vinnslustöðvarinnar eitt þúsund og eitt hundrað milljónir í sinn vasa en sjúkraliðarnir, hjúkrunarfæðingarnir, geislafræðingarnir  og  ræstingafólkið á heilbrigðisstofnunum. Svo er talað um að sjúkraliðar geri þjóðarsátt . Um hvað? Að þegja?

Fyrst skulum við sjá efndir loforðanna

Eigum við ekki að bíða eftir efndum á skuldaniðurfærslu-loforðinu áður en mikið lengra verður haldið í þjóðarsáttartali? Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er kominn til valda vegna loforða sem Framsóknarflokkurinn gaf um að færa niður höfðustól skulda. Sjálfstæðisflokkurinn hefur reynt að fjarlægja sig ábyrgð á þessu loforði. Það getur hann ekki gert, einfaldlega vegna þess að hann situr í Stjórnarráði Íslands vegna þessa loforðs. Ef því verður ekki framfylgt ber honum ekkert síður en Framsóknarflokknum að segja sig frá ríkisstjórninni. Ella yrði um Sjálfstæðisflokkinn sagt og stjórnarflokkana báða, að þeir hefðu logið sig til valda.

Umræður á Rás 2 í morgun: http://www.ruv.is/ras-2/mikil-olga-vegna-launahaekkanna

Eyjan:  http://eyjan.pressan.is/frettir/2013/07/30/erfidar-kjaravidraedur-framundan-heilbrigdisvottord-ad-lata-ekki-bjoda-ser-aukid-kjaramisretti/