Fara í efni

NATÓ SJÁI FYRIR VOPNUM, ÚKRAÍNUMENN FYRIR BLÓÐI

Íslenskir stjórnmálamenn hafa gengið hart fram í því að hvetja til þess að herða á stríðsrekstrinum í Úkraínu. Ráðherrar minna stöðugt á að Íslendingar hafi ekki látið sitt eftir liggja. Þött Íslendingar séu “herlaus þjóð” hafi þeir flutt vopn til vígstöðvanna, látið mikla fjármuni af hendi rakna og óbeint tekið þátt í stríðinu með ýmsum hætti. En allir þurfi að gera sitt og íslenskir stjórnarliðar hafa gagnrýnt þá sem ekki þykja standa sig, þá ekki síst Þjóðverja upp á síðakastið fyrir að draga lappirnar í vopnasendingum til Úkraínu.

Í síðustu viku sótti utanríkisráðherra Íslands fund í Ramstein í Þýskalandi þar sem lagt var á ráðin um hvernig megi efla sókn gegn innrásraliði Rússa í Úkraínu. Fundarstaðurinn var táknrænn um hernaðarsamvinnuna því í Ramstein hefur NATÓ stjóuðnstöð og þar hafa Bandaríkjamenn haft evrópskar höfðustöðvar bandaríska flughersins en herstöðin í Ramstein gegnir lykilhlutverki í dróna hernaði Bandaríkjanna í Pakistan, Mið-Austurlöndum og í Afríku.

Þarna var Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra Íslands mætt ásamt þeim Austin varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Stoltenberg framkvæmdastjóra NATÓ og Resnikov varnarmálaráðherra Úkraínu ásamt að sjálfsögðu fulltrúum annarra aðildarríkja hernaðarbandalagsins.
Ástæðan fyrir því að ég nefni þessi sérstaklega er að þau eru saman á myndinni hér að ofan en einnig vegna hins að í þrjá þeirra sem þar sjást er vitnað í grein eftir Þórarin Hjartarson sem birtist hér á síðunni og er vel þess virði að lesa. Þaðan er á meðal annars tekin fyrirsögn þessa pistils og er hún úr munni varnarmálaráðherra Úkrainu. http://ogmundur.is/frjalsir-pennar/2023/01/thorarinn-hjartarson-skrifar-fjorar-tilvitnanir-sem-lysa-samhengi-ukrainustridsins?fbclid=IwAR0scc4inboiq8WrokG876Zx1_Y5284Gfkyq3BjNgQIU0c49-uT5hJTXfeo

Síðan hefur það gerst í þessari viku að Þjóðverjar hafa “loksins” ákveðið að senda skriðdreka á vígvöllinn í Úkraínu og hefur þeirri ákvörðun verið fagnað í NATÓ á meðal annars af hálfu Katrínar Jakobsdóttur fosætisráðherra Íslands. Í Þýskalandi heyrast hins vegar sífellt fleiri og háværari raddir sem vara við stigmögnun stríðsins í Þýskalandi og stöðugt meiri og beinni þátttöku NATÓ. Engin slík varnaðarorð komu frá forsætisráðherra Íslands, Katrínu Jakobsdóttur.
Hún sagði að þetta hefði verið "stór" ákvörðun fyrir kanslarann en ekki eitt orð um að það kynni að hafa verið "stór" ákvörðun, hvað þá erfið, fyrir íslenskan ráðherra, sem kosinn hefði verið á þing meðal annars til að tala gegn hernaðarhyggju og veru Íslands í NATÓ, að gerast einn helsti talsmaður hernaðarbandalags.

Sennilega er þetta ekkert erfitt því á Alþingi er enginn sem hreyfir andmælum gegn því að talað sé fyrir hönd Íslendinga eins og gert er. Fylgispekt við bandaríska utanríkisstefnu og hernaðarbandalagið NATÓ er náttúrlega engin nýlunda í íslenskum stjórnmálum. En þetta hefur hins vegar gert Vinstrihreyfinguna grænt framboð að öðru en hún var.
natoísland.jpg