Fara í efni

NAGLASÚPA NÝRRA TÍMA

Birtist í Morgunpósti VG 07.09.05.
Flest höfum við heyrt ævintýrið um naglasúpuna. Förumaður vélar húsráðendur, þar sem hann hafði borið að garði, til að matreiða fyrir sig matarmikla súpu. "Súpuna má búa til með einum nagla, það er allur galdurinn," sagði förumaðurinn við auðtrúa gestgjafa sína, en bætti síðan við, að ekki væri verra að fá þetta kjötmetið og síðan hitt grænmetið í pottinn. Vissulega dygði naglinn, en því væri ekki að neita að súpan yrði kjarnmeiri með viðbótinni. Svona gekk þetta þar til matarkistur heimilsins höfðu verið tæmdar.

Fyrir fáeinum dögum var okkur sagt frá því í fjölmiðlum að í Mosfellsveit hefðu landeigendur boðist til að reisa 400 manna íbúabyggð. Í fréttum Ríkisútvarpsins 25. ágúst sagði: "Uppbygging hverfisins verður sveitarfélaginu að kostnaðarlausu þar sem Leirvogstunga ehf. tekur að sér lagningu vegar, brúargerð, lagnavinnu og kostar byggingu skóla og leikskóla á svæðinu. Einkaframkvæmd af þessu tagi er nýjung á Íslandi."
Í frétt Fréttablaðsins daginn eftir sagði: "Um einkaframkvæmd er að öllu leyti að ræða og uppbyggingin sveitarfélaginu að öllu leyti að kostnaðarlausu." Það var þarna sem mér datt naglasúpan í hug, "sveitarfélaginu að öllu leyti að kostnaðarlausu."
Gat þetta verið, hugsaði ég. Átti að gefa vegina, brýrnar, skólana og leikskólana?
Um tvennt gat hér verið að ræða. Í fyrsta lagi að framkvæmdaaðilar ætluðu höfða til hátekjufólks og krefja þá um svo hátt íbúðaverð að það dygði fyrir kostnaði við vegi, skóla og aðrar framkvæmdir auk hagnaðar af verkefninu. Í öðru lagi væri til í dæminu að ná ætti inn fyrir inn kostnaðinum á annan hátt og með tíð og tíma, að hætti einkaframkvæmdarinnar eins og við þekkjum hana, með leigu fyrir afnot af mannvirkjum á borð við skóla og aðra þætti sem flokkast undir innviði samfélagsþjónustunnar. Að sjálfsögðu gæti verið um að ræða afbrigði eða blöndu af þessu tvennu.

Í hádegisfréttum RÚV 25. ágúst skýrðist málið nokkuð. Þar segir Bjarni S. Guðmundsson, Leirvogstungu ehf.,:"...þetta er ekki rausnarlegt tilboð held ég, ekki meira en eitthvað annað. Bæjarfélög í dag rukka eða innheimta gatnagerðargjöld sem að standa straum af miklu meira heldur en götum, þarna er verið að fjármagna innviði, skólamál og stofnbrautir. Við gerum einfaldlega það sama og göngum þannig í stað bæjarfélagsins hér. Við innheimtum í rauninni bara verð fyrir lóð, ég sel þeim lóð og stend þannig straum af bæði gatnagerðinni og stofnbraut og legg þar líka til fræðslumála."
Ef til vill  fær það staðist að segja, að framangreindar framkvæmdir verði "sveitarfélaginu að öllu leyti að kostnaðarlausu". Hér er þó á tvennt að líta.

Í fyrsta lagi getur verið misvísandi að setja málið fram með þessum hætti. Vissulega ber sveitarfélagið, sem stofnun, ekki kostnað vegna framkvæmdanna, að því að okkur er sagt, en samfélagið, íbúarnir, munu að sjálfsögðu gera það. Um er að ræða tilfærslu á innheimtu fyrir kostnaði. Íbúarnir koma til með að greiða fyrir framkvæmdirnar þótt ekki verði það með milligöngu sveitarfélagsins.

Í öðru lagi höfum við ekkert fengið að vita um framhaldið. Af því ræðst hver verður kostnaðarhlutdeild sveitarfélagsins þegar upp verður staðið. Þegar einkaframkvæmd innan samfélagsþjónustunnar bar fyrst á góma hér á landi, um og upp úr miðjum síðasta áratug síðustu aldar, var um það rætt að stefna bæri að því að einkaframkvæmdarverkefni skyldu fjármögnuð með notendagjöldum. Á síðari árum, hafa einkavæðingarsinnar í íslenskum stjórnmálum, hins vegar margir hneigst að því að einkavædd samfélagsþjónusta skuli fjármögnuð með skattfé. Hvað bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ hugsa sér höfum við ekki fengið vitneskju um. Því miður láta fjölmiðlar gjörsamlega undir höfuð leggjast að spyrja hinna augljósu spurninga. Hlustendur og lesendur eru þess vegna skildir eftir í lausu lofti. Mér sýnist Bjarni S. Guðmundsson tala einna skýrast. 

Hitt er augljóst að hér er um grundvallarstefnubreytingu að ræða í samfélagi okkar. Skattar eru felldir niður en verktaka falið sjálfdæmi um innheimtu þeirra, eða öllu heldur skattígildið. Verkefni sem hafa verið á vegum samfélagsins eru, með öðrum orðum, færð á hendur einkaaðila og þeim fengið sjálfdæmi um málefni sem áður voru til lykta leidd samkvæmt leikreglum lýðræðissamfélags.
Mín tilfinning er sú, að með þessu stefnum við hraðbyri til fortíðar. Í bresku blaði las ég nýlega frétt þar sem fram kom að þess eru dæmi að auðmenn í Bretlandi eigi enn, ekki aðeins landareignir, heldur einnig heil samfélög, þ.e. "innviði þeirra". Í breska blaðinu Daily Telegraph frá 23. ágúst sl., segir um landareignina Warter í Yorkshire, sem breskur auðjöfur hafði fest kaup á, en áður hafði komið til tals að Mick Jagger eða Richard Branson væru hugsanlegir kaupendur.: "Warterlandareignin er 11hundruð ekrur, skóli, ráðhús, verslun, pósthús, íþróttavellir, lystigarðar og 63 íbúðarhús. Þrjátíu starfsmenn starfa við landareignina en alls búa 150 manns á henni." Svona var þetta á mektardögum aðalsins og enn þekkjast dæmi um að auðkýfingar eignist samfélög með húð og hári eins og þessi frétt úr Daily Telegraph minnir okkur á.

Það þótti horfa til framfara á sínum tíma að færa völdin frá aðli og auðmönnum til almennings og láta  lýðræðislega kjörna fulltrúa ráðstafa sköttum, hvort sem þeir heita tekjuskattar, gatnagerðargjöld eða annað. Í Mosfellsbæ sýnist mér yfirvöld daðra við fortíðina. Nú stendur nefnilega til að afnema skattana og láta ákvarðanir í hendur þeirra sem hafa eignarhald á landi eða búa yfir digrum sjóðum. Afturhaldsmenn fagna þessu eflaust og þeir sem harðast ganga fram í peningafrjálshyggju. Aðrir eru flestir, hygg ég, mjög andvígir þessari stefnu, lítt hrifnir eða í besta falli efins.