Fara í efni

MYNDIRÐU STÖKKVA OFAN AF SÍVALATURNINUM?

Í kvöld sýndi RÚV danska heimildarmynd um Kristjaníu. Hún er í hjarta Kaupmannahafnar þar sem áður voru stöðvar danska hersins. Á hippatímanum, í lok 7. áratugar síðustu aldar, var myndað eins konar fríríki í Kristjáníu. Þar kom sér fyrir allstór hópur fólks, sem ekki sætti sig við reglustrikusamfélagið og má segja að óvíða hafi anarkískt skipulag náð að skjóta rótum eins rækilega og í Kristjaníu. Þessu fékk ég tækifæri til að kynnast ögn þegar ég gerði sjónvarpsþátt um Kistjaníu á árinu 1988 en þá var ég fréttamaður Sjónvarpsins á Norðurlöndum, staðsettur í Kaupmannahöfn. Hin anarkíska stjórnskipan í Kristjaníu  var mjög lýðræðisleg og byggði hún á allföstu formi. Þegar ég lagði leið mína um Kristjaníu síðastliðið sumar þóttist ég sjá merki ýmissa breytinga í átt til "borgaralegs samfélags" í hluta Kristjaníu, þótt annars staðar væri yfirbragðið svipað og áður fyrr.
Í dönsku heimildarmyndinni voru sýnd átök lögreglu og Krstjaníubúa. Lögreglan kvaðst vera að uppræta eiturlyfjasölu. Kristjanúbúar töldu hins vegar að þetta væri enn ein tilraunin til að steypa þá í sama mót og aðra. Þá erum við búin að vera, sögðu þeir ennfremur.
Oft hefur verið litið á afstöðu Dana til Kristjaníu sem eins konar pólitíska loftvog í landinu. Þegar umburðurlyndi væri ríkjandi í Danmörku létu stjórnvöld Kristjaníu í friði. Þegar Danir væru hins vegar strektir og upptrektir væri lögreglunni gert að leggja til atlögu við Kristjaníubúa. Við verðum að gera þetta, sagði einn lögreglumannanna afsakandi í myndinni í kvöld við litla Kristjaníustúlku. Okkur er fyrirskipað að gera þetta. Litla stúlkan spurði strax á móti: Myndirðu láta skipa þér að stökkva niður úr Sívalaturninum? Ekki held ég að þú myndir hlýða slíkum fyrirskipunum. Lögreglumaðurinn horfði orðvana á litla anarkistann.
Annars var, þrátt fyrir allt, notalegt að sjá hve mörgum lögreglumanninum virtist vera skemmt yfir því hve Kristjaníubúum varð ágengt í andófinu gegn þeim. Lögreglan einbeitti sér að því að fjarlægja stórgrýti af götum Kristjaníu sem íbúarnir höfðu komið fyrir til að torvelda bílaumferð. En jafnaskjótt og lögreglan hafði fjarlægt grjótið með stórvirkum vinnuvélum voru steinarnir aftur komnir á sinn stað. Þetta sáum við lögreglumenn ræða hlæjandi sín í milli. Bros þeirra þótti mér endurspegla umburðarlyndi dönsku þjóðarinnar. Vonandi tekst henni að varðveita það. Samkvæmt fréttum frá Danmörku mun umburðarlyndið þó heldur eiga í vök að verjast nú um stundir. Umburðarlyndi mun ekki vera sérgrein hægri sinnaðrar ríkisstjórnar landsins.