Fara í efni

MUNUR Á ÁSETNINGI OG MISTÖKUM

bankarnir
bankarnir

„Einkavæðing bankanna, hin síðari"
er orðalag úr ranni Hrunverjanna, sem um aldamótin einkavæddu íslenska bankakerfið og komu því í hendur pólitískra vina sinna. Siðferðisbrot frá þessum tíma voru ófá og úr þessu ferli er enn verið að rannsaka að hvaða marki saknæmt atferli hafi átt sér stað. Fáir deila um það - opinberlega alla vega - að rannsókn hafi verið réttlætanleg og nauðsynleg af hálfu réttarkerfisins og þeirra sem eiga að standa vörð um regluverkið og siðferðið.

Stjórnmálamenn úr sakbitnum stjórnmálaflokkum, sem stóðu fyrir einkavæðingu bankanna vilja nú rannsókn á „einkavæðingu bankanna, hinni síðari". Þar er átt við yfirfærslu bankanna í hendur kröfuháfa hinna föllnu banka, sem síðan fóru að selja kröfur sínar. Þá komu til sögunnar vogunarsjóðir og spákaupmenn, hrægammarnir sem svo voru réttilega nefndir, enda ætluðu þeir að hafa sem mest út úr skuldsettum fyrirtækjum og heimilum.

Þarna voru eflaust gerð ýmis mistök af hálfu stjórnvalda og ég veit um nokkur,  en vel að merkja þá var ekki þarna á ferðinni tilraun til að hygla skjólstæðingum eins og þegar bankarnir voru einkavæddir upp á silfurfat tiltekinna stjórnmálaafla.

Það er munur á ásetningsbroti og mistökum! Á því er grundvallarmunur að notfæra sér pólitíska stöðu og vald til beina ávinningi ofan í vasa pólitískra vina sinna annars vegar og að gera mistök hins vegar.

Það kann stundum að orka tvímælis hvar mörkin liggja þarna á milli. Sjálfsagt er að kanna það. Það er gott fyrir lýðræðið og það losar okkur við dylgjuumræðuna. Hún er hættuleg lýðræðinu.

Margir koma sárir undan hruninu. Auðvitað má spyrja um skuldsetningu ekki síður en hvernig með skuldirnar var farið, hver hafi til dæmis verið tengslin inn á fjármálakerfið af hálfu þeirra sem báru milljarða skuldbindingar. Hvar á að byrja og hvar á að enda?

Fyrir alla muni, látum ekkert órannsakað sem þykir hafa orkað tvímælis. En vanda þarf til verka.