Fara í efni

MORGUNBLAÐIÐ OG RÍKISSJÓNVARPIÐ BRUGÐUST


Ósköp var dapurlegt að lesa laugardagsútgáfu Morgunblaðsins og verða vitni að því hvernig blaðið reyndi að draga ríkisstjórnina að landi í eftirlaunamálinu. Tilefnið var fréttamannafundur þeirra Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um fyrirhugaðar breytingar á eftirlaunalögunum svokölluðu. Áfram ætla ráðherrar sér helmingi hærri  lífeyrisávinnslu en best gerist hjá almennum starfsmönnum ríkisins! Morgunblaðið flennir hins vegar yfir forsíðu: Ekki sömu sérkjör og á innsíðu er fyrirsögnin Mestu deiluefnin felld úr gildi.
Þetta er ekki rétt. Deilan um eftirlaunalögin frá 2003 hefur snúist um það innan og ekki síður utan þings hvort þingmenn, ráðherrar, hæstaréttardómarar og aðrir „æðstu" embættismenn ættu yfirleitt að búa við sérkjör  í lífeyrisávinnslu. Samkvæmt hugmyndum ríkisstjórnarinnar á þessi hópur að gera það áfram. Þess vegna er fyrirsögnin röng - í besta falli misvísandi.
Hvers vegna leyfir Morgunblaðið sér að setja málið fram með þessum hætti? Hvers vegna fær engin gagnrýnisrödd að heyrast? Morgunblaðið og reyndar einnig fréttastofa Sjónvarps brugðust í þessu máli. Það er ekki í fyrsta sinn sem fréttastofa Sjónvarpsins bregst þegar þessi sérréttindalög eru annars vegar. Það er eins og fréttastofan leggi sig í líma við að sniðganga þá sem líklegir eru til að gagnrýna  lífeyrisforréttindin harðast.
Hvað Morgunblaðið áhrærir þá minnir þessi matreiðsla á að stutt er í flokkshollustu blaðsins. Eða er það kannski fremur stuðningur almennt við ríkisstjórnina? Eitthvað er þetta óþægilega valdstjórnarlegt: Fréttamannafundur í Þjóðmenningarhúsi. Fallað um sérréttindi ráðherra. Engin gagnrýni. Allt slétt og fellt... Nógu gott?