Fara í efni

MISSKILDIR KRAFTAVERKAMENN


Fulltrúi Magma Energy sagði í sjónvarpsviðtali (http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4472192/2010/05/17/)  að  hann vildi vinna Íslendingum vel. Og svo bætti hann við: Og fjárfsestunum líka! Ætli það ekki. Hvílkt kræsingaborð Ísland er í  augum þessara aðila! Þorskurinn, jarðvarminn, fallvötnin...Nú beinir  Magma Enrergy sjónum að Hrunamannaafrétti „frá Flúðum upp í  Kerlingafjöll." Sveitarstjórnarmenn á svæðinu segja að þarna gætu  verið gríðarlegir virkjunarmöguleikar og taka vel í samstarf við Magma. Þetta kom fram í fréttum: http://dagskra.ruv.is/ras1/4486982/2010/05/18/0/

Hér er um meiri hagsmuni að ræða en svo að sveitarstjórnarmenn á  tilteknu svæði megi ráða einir um framvinduna. Eignarhald og nýting  auðlindanna kemur okkur öllum við - öllum landsmönnum. Þar á hvorki Hrunamnnahreppur né meintir kraftaverkamenn í Reykjanesbæ að hafa sjáfdæmi. Setja þarf skýra nýtingarátælun sem byggð er á vandaðri og umfangsmikilli umræðu og sátt í samfélaginu. Hér þarf að horfa til náttúreverndar og einnig hins að arðurinn af auðlindum gagnist íslensku samfélagi, ekki fjárfestunum í Magma!

Við erum búin að horfa upp á svo ótrúlegt ábyrgðarleysi og andvaraleysi í ráðstöfun auðlinda okkar að ég hélt sannast sagna að við þyrftum ekki að fara í gegnum þessa umræðu að nýju. En þegar menn eru búnir að skuldsetja sveitarfélögin upp í rjáfur einsog gerst hefur  í Reykjanesbæ eða eru glámskyggnir á hætturnar í samstarfi við „góðu  mennina" sem koma með allt nammið  frá útlöndum og segjast vilja okkur svo vel, einsog mér heyrist á oddvita Hrunamannahrepps, þá þarf að grípa í taumana. Ég tek heilshugar undir með höfundi leiðara Morgunblaðsins sem bregst við einmitt þessum aðstæðum í dag og segir  réttilega:

„Um leið og við eigum að fagna margvíslegri fjárfestingu verðum við að hafa þrek til þess að láta ekki frá okkur auðæfi til langs tíma á gjafvirði dagsins. Við höfum bognað aðeins en við höfum ekki brotnað. Þjóðin hefur ekki samþykkt að eignir hennar séu falboðnar af kæruleysi  á brunaútsölu. Og við megum enn síður láta frá okkur að taka efnislega afstöðu til hvers máls. Það fer til að mynda ekki á milli mála að það stríðir gegn anda gildandi laga að lauma erlendum fjárfestum inn í  orkugeirann í gegnum skúffufyrirtæki í Svíþjóð. Og þó er líklegra að  slík sniðganga við lögin sé beint brot gagnvart þeim sjálfum. Við eigum að taka okkar eign ákvarðanir um hvernig við viljum skipa eignarhaldi á meginauðlindum okkar."

Það er rétt. Það er óafsakandi að Alþingi skuli ekki hafa breytt lögum í þá veru sem við Hjörleifur Guttormsson, þáverandi alþingismaður beittum okkur fyrir á sinni tíð, og fól í sér að sveitarstjórnarmenn gátu ekki frarið með náttúruperlur og auðlindir heillar þjóðar eftir því  hvernig stóð í bóli hjá þeim í það og það skiptið. Eða hvað fyndist  mönnum um ef það væru sveitarstjórnarmenn við strandlengjuna sem réðu því einir hvort  útlendingum væri seld fiskveiðiauðlindin við Íslandsstrendur?