Fara í efni

MISHEPPNUÐ ÍKVEIKJA


Einar K. Guðfinnsson,
alþingismaður og sjávarútvegsráðherra, minnir svolítið á pólitískan brennuvarg þessa dagana. Hann skrifar pistil á heimasíðu sína í dag þar sem hann reynir allt hvað hann getur að spilla því ágæta samstarfi sem er á milli stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi. Hann reynir að finna dæmi þar sem flokkarnir veitist hver að öðrum og er harla hróðugur þegar honum finnst það takast. Hann gleðst eins og brennuvargur við eldsvoða, sbr. Hér.

Staðreyndin er hins vegar sú að á sama tíma og logar stafna á milli á ríkisstjórnarskútunni fer fram gott og málefnalegt samstarf á milli stjórnarandstöðuflokkanna, VG, Frjálslyndra og Samfylkingar. Margt eiga þessir flokkar sameiginlegt og við höfum það jafnan í huga. Að sjálfsögðu horfum við af raunsæi einnig til þess að málefnalegur ágreiningur er á milli þeirra á ýmsum sviðum. Þá hefur greint á varðandi einkavæðingu almannaþjónustunnar, í utanríkismálum og í umhverfismálum hafa leiðir skilið. VG, einn flokka á Alþingi, vildi – og vill – standa náttúruvaktina til síðasta blóðdropa á sama tíma og Samfylking studdi Kárahnjúkavirkjun og framkvæmdir við Þjórsárver. Öllu þessu skal til haga haldið. Ef þessi ágreiningur væri ekki fyrir hendi væru flokkarnir ekki þrír heldur einn. Hins vegar skiptir öllu máli að missa ekki sjónar á mikilvægum markmiðum sem þessir flokkar eiga sameiginleg, festast ekki í fortíð heldur hugsa fram á veginn. Í mínum huga hljóta stjórnarandstöðuflokkarnir að huga að samstarfi að loknum næstu alþingiskosningum.

Gífurlegir hagsmunir eru í húfi að koma núverandi ríkisstjórn frá völdum. Hún fer eyðileggjandi um landið í stóriðjufári og einkavæðingaráráttan er eins og skrúfa á sál hennar. Í stóriðjupólitíkinni er Framsókn leiðandi en í einkavæðingarmálum handstýrir Íhaldið vesalings Framsókn inn í hverja einkavæðinguna á fætur annarri. Næst á færibandinu er Ríkisútvarpið en marga rekur eflaust minni til að Framsókn sór og sárt við lagði að aldrei myndi flokkurinn skrifa upp á hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins. Þess er nú skammt að bíða að frumvarp um RÚV hf komi á dagskrá Alþingis í flutningi meirihlutans á Alþingi, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar!

Stjórnarandstöðuna greinir á um sitthvað eins og áður segir. Það er hins vegar ekkert við ágreining að athuga ef hann er leysanlegar á ásættanlegan hátt fyrir hlutaðeigandi. Í lýðræðisfyrirkomulagi leita menn málamiðlana.  Núverandi ríkisstjórnarsamstarf byggir hins  vegar ekki á lýðræðishefð málamiðlana. Í samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknar er byggt á valdboði. Valdið hefur verið á hendi Sjálfstæðisflokks. Enn er valdið hjá þeim flokki þótt framsóknarmaður fái um sinn að sitja á stóli forsætisráðherra. Svo vænt þykir Halldóri Ásgrímssyni um stólinn sinn að allt þykir honum til vinnandi að halda honum undir sér. Þess vegna lætur hann Framsókn hlýða öllum dyntum Sjálfstæðisflokks.

Einar K. Guðfinnsson á líka sína stólsetu. Eflaust þykir honum vænt um setu ráðherra sjávarútvegsmála í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Nú þegar sól þessa þreytta stjórnarsamstarfs hnígur til viðar og kular af hinu pólitíska kveldi er ekki að undra að menn gerist umkomulausir. Munurinn á litlu stúlkunni með eldspýturnar í ævintýri H. C. Andersen og sjávarútvegsráðherra, sem einnig mundar stokkinn, er sá að litla stúlkan vildi ylja sér af blossanum af eldspýtunni, ráðherrann vill hins vegar bera eld að innviðunum í samstarfi stjórnarandstöðunnar. Hann gerir sér hins vegar ekki grein fyrir því að samstarf innan stjórnarandstöðunnar byggir á vitneskju um mismunandi áherslur og stefnumarkmið flokkanna þriggja en jafnframt vilja þeirra til að miðla málum og komast að samkomulagi. Þess vegna mun tilraun Einars K.Guðfinnssonar til pólitískrar íkveikju ekki heppnast.