Fara í efni

MINNT Á MÁLÞING UM LÍFEYRIMÁL HJÁ BSRB


Í dag klukkan 13 verður efnt til rúmlega tveggja tíma málþings um lífeyrismál í höfuðstöðvum BSRB að Grettisgötu 89 í Reykjavík.  Þeir sem þar tala eru að ýmsu leyti eins konar tákngervingar fyrir aðskiljanlega þætti hinnar félagslegu og fjármálalegu  umgjarðar um íslenska  lífeyriskerfið. Þar mun mæla fulltrúi lífeyrissjóðanna allra, Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða; forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins og þar með formælandi almannatrygginga, Sigríður Lilly Baldursdóttir;  stórvesír úr banka- og fjárfestinagaumhverfinu, Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings banka en hann fjallar um hlutdeild lífeyrissjóðanna í „útrásinni" og síðan höfum við hina bókmenntalegu og sögulegu sýn bókmenntafræðingsins, sem í dagskrá er kennd við núverandi starf sitt í Alþingishúsinu við Austurvöll, Katrín Jakobsdóttir. Ég verð einnig með innleg á þessari ráðstefnu sem efnt er til Gunnari Gunnarssyni, frammámanni um lífeyrismál hjá BSRB um langt árabil til heiðurs en að loknu málþinginu býður Sjúkraliðafélag Íslands til móttöku í tilefni 70 ára afmæli hans. Gunnar hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra félagsins. Fundarstjóri á málþinginu verður Kristín Á Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands.