Fara í efni

MINNINGARORÐ UM ÞORSTEIN J. ÓSKARSSON

Síðastliðinn fimmtudag fór fram útför gamals vinar míns, Þorsteins J. Óskarssonar. Því miður gat ég ekki verið viðstaddur útförina því ég var þá og er reyndar enn staddur utan lands. Ég fékk hins vegar birta minningargrein í Morgunblaðinu og birti ég hana hér:

Kynni okkar Þorsteins J. Óskarssonar ná aftur til fyrstu ára níunda áratugarins. Það var á vettvangi BSRB sem leiðir okkar lágu saman; hann einn helsti forsvarsmaður símamanna en ég fulltrúi starfsmanna Sjónvarps. Um margt voru Félag íslenskra símamanna og Starfsmannafélag Sjónvarps áþekk, bæði blönduð félög sem kallað var, tæknimenn, skrifstofufólk, umsjónarmenn og húsverðir, öll í sama félagi.
Þannig vildum við líka mörg hver hafa það þótt almennt gengi straumurinn á þessum árum í þá átt að einstakar starfsstéttir mynduðu félög sem einskorðuðust við störf sem voru tiltölulega þröngt skilgreind - fagið.
Svo komu enn nýir tímar og í öllu þessu umróti velktumst við Þorsteinn. Líka í pólitíkinni. Þar áttum við sameiginleg markmið. En um leiðirnar vorum við ekki alltaf sammála. Hann vildi samfylkja í Samfylkingu, þannig væru vinstri menn líklegri til að ná völdum og fyrir bragðið mestum árangri. Ég taldi það af og frá, hugsanlega ávísun á völd en jafnframt áhrifaleysi fyrir vinstri sjónarmið í útvötnuðum flokkum eins og við höfðum dæmin um hér á landi sem víða annars staðar. Sennilega höfðu báðir nokkuð til síns máls.
Um það vorum við þó sammála að þeir stjórnmálaflokkar sem vildu kenna sig við jöfnuð og félagshyggju ættu að starfa saman ef þess væri kostur. En það sem þó sameinaði okkur umfram allt annað voru þau vináttubönd sem við hnýttum við okkar fyrstu kynni á árunum sem við áttum samleið í BSRB. Þau bönd trosnuðu aldrei þótt hin síðari ár yrði samgangur minni en ég hygg að við hefðum báðir gjarnan viljað. 
Eftirminnilegt er hve skemmtilegur fundamaður Þorsteinn var enda hafði hann einstakt lag á að kveikja í fundum þannig að þeir fuðruðu upp ef sá gállinn var á honum. Þegar hann hafði beðið um orðið gat maður gengið að því vísu að framundan yrði líf og fjör.
Þorsteinn hafði það fram yfir flesta menn hve listrænn hann var. Málaði hann talsvert í frístundum sínum og kæmi mér ekki á óvart að það hafi heldur færst í vöxt með árunum. Ekki flíkaði hann þessari gáfu sinni en fékkst þó til að efna til sýninga á verkum sínum fyrir hvatningu annarra. Mörg málverk Þorsteins voru afbragðsgóð og held ég mikið upp á vatnslitamynd sem hann gaf mér fyrir mörgum árum af ferðalöngum í íslenskum fjallasal..
Þorsteinn J. Óskarsson skilur eftir tómarúm og eftirsjá. Ég færi þeim sem stóðu honum næst innilega samúð á kveðjustundu.
Ögmundur Jónasson