Fara í efni

Minningarorð um Jens Andrésson

Í dag var borinn til grafar góður vinur minn og samstarfsmaður til margra ára, Jens Andrésson. Ég minntist hans í minningargrein í Morgunblaðinu í dag og einnig nokkrum orðum við útför hans en þar töluðu auk mín tveir aðrir leikmenn, náinn vinur Jens, Guðmundur Krisjánsson, hafnarstjóri á Ísafirði, fyrrum samstarfsmaður Jens á Grænhöfðaeyjum og náinn vinur svo og samstarfmaður hans í járnblendiverksmiðjunni í Hvalfirði þar sem Jens starfaði hin síðari á, Tjörvi Berndsen. Mæltist þeim báðum mjög vel.

Hér á eftir er minnigargrein mín í Morgunblaðinu og síðan orð mín í kirkju Óháða safnaðarins frá í dag en þar fór athöfniun fram í dag:

Það er mikil eftirsjá að Jens Andréssyni; óraunverulegt að hann sé horfinn á braut. Að vísu verður hann seint horfinn úr minningu okkar, þar mun hann alltaf eiga vísan stað. En í huga okkar, vina Jens Andréssonar, þá var hann þeirrar gerðar að hann hlyti alltaf að verða til staðar. Líkt og klettur sem ekki verður auðveldlega færður úr stað.
Í endurminningu minni kemur Jens fyrst til sögunnar sem einn af forystumönnum Iðnnemasambandsins. Það var löngum róttækt mjög, tók af mikilli einurð málstað þeirra sem hallaði á heima og heiman. Sjóndeildarhringur íslenskra iðnnema var nefnilega lengi víður og létu þeir sig ekki einvörðungu varða hlutskipti landa sinna heldur einnig afskipti heimsvaldasinna af fátækum þjóðum í Mið-Ameríku og aðþrengdum fórnarlömbum kynþáttastefnunnar í Suður-Afríku.
Þessa samstöðuhugsun suður a bóginn yfirgaf Jens aldrei og til marks um það var dvöl hans á Grænhöfðaeyjum undan Afríkuströndum um árabil á níunda áratugnum þar sem vélstjórinn íslenski kenndi innfæddum tökin í vélarrúmi fiskveiðiskipa.
Það var líka í karakternum að gerast starfsmaður Vinnueftirlitsins og síðar öryggismálastjóri Elkem járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði. Að búa starfsfólki öryggi á vinnustað var honum alla tíð mikið hjartans mál.
Árið 1990 var Jens kjörinn í stjórn Starfsmannafélags ríkisstofnana, SFR, og árið 1996 varð hann formaður félagsins en formennsku í SFR gegndi hann til ársins 2006.
Eftir að Jens varð varaformaður BSRB á árabilinu 1997 til 2006 varð samstarf okkar mjög náið. Aldrei nokkurn tímann bar þar skugga á. Reyndi ég oft hve ráðagóður og traustur maður Jens var. Alltaf var hægt á hann að stóla, haggaðist ekki þótt öldugangur yrði eða gustaði um menn.
Á vettvangi SFR og einnig hjá BSRB lét Jens til sín taka á ýmsum málasviðum, ekki síst var hann áhugasamur um aðgang launafólks að endurmenntun og vildi hann nýta alla þá möguleika sem tæknin bauð upp á til fræðslu og menntunar. Jens sinnti auk þess fjölda trúnaðarstarfa fyrir BSRB og verkalýðshreyfinguna almennt.
Jens stóð alltaf fast á sínu en það gerði hann fyrst og fremst af staðfestu og ætíð án bægslagangs og það sem meira var um vert, án þess að meiða nokkurn mann. Fyrir vikið var fólki hlýtt til hans. 
Þessar minningar eru mér nú mikils virði og þá einnig þær sem snúa að skemmtilegum ferðafélaga og vini. Nokkrum sinnum bar það við að við legðum saman land undir fót og er margs að minnast úr slíkum ferðum. Ólafsvakan í Færeyjum verður þar sennilega efst í minni. Færeyskir vinir okkar sendu saknaðarkveðjur til Íslands þegar þeir fréttu af fráfalli Jens Andréssonar og þannig er það eflaust um ótal aðra sem hugsa til þessa góða drengs, nú þegar hann kveður, jafnframt því sem við öll sendum Kristínu og fjölskyldu þeirra Jens allri hugheilar samúðarkveðjur.       

Minningarorð mín um Jens Andrésson við útför hans í dag:

Það má aldrei gleymast að auður og styrkur stéttarfélaga felst fyrst og fremst í félagsmönnunum. Það má ekki missa sjónar á því að forystan er til fyrir fólkið en fólkið ekki fyrir forystuna. Sama gildir um allt starf. Það má ekki steingervast í stofnunum. Styrkurinn felst í orðspori, trúnaði og trausti milli félagsmanna og þeirra sem valist hafa til forystu. Styrkurinn felst í skýrum hugmyndum um samfélagsgerð sem byggist á samhjálp og félagshyggju. Ef þetta verða tveir heimar – fjarri hvor öðrum í kjörum og hugsunargangi þá mun hreyfingin smám saman veslast upp. Ef þeir sem veljast til forystu hins vegar skilja að það þarf að næra ræturnar þá mun hreyfingin eiga bjarta framtíð.

Svona svaraði Jens Andrésson, verkalýðsforingi, þegar hann var spurður hvaða veganesti verkalýðshreyfingin þyrfti helst á að halda á vegferð sinni inn í 21. öldina.

Svarið er sterkt og það er heitt, róttækt og rautt. Enda var þetta Jens.

Hann var sterkur maður og hann var hlýr. Hann var róttækur og andinn var baráttuglaður. Þannig kynntist ég honum. Fyrst vissi ég af honum sem óstýrilátum iðnnema, ungum manni sem vildi hrista upp í sofandahætti sinnar samtíðar, síðar sem félaga í BSRB, þá sem formanni SFR, frá 1996 til 2006, og varaformanni BSRB, einum nánasta samstarfsmanni mínum um áratugar skeið.

Í samstarfi okkar minnist ég aldrei þess að skugga hafi borið á. Að sjálfsögðu vorum við ekki sammála um allt eins og fram kemur í úrvalsriti Þorleifs Óskarssonar, sagnfræðings, um sögu SFR, sem tilvitnun mín hér á undan var sótt í, en í öllum grundvallarmálum vorum við fullkomlega samstiga.

Og við urðum vinir.

Utan vinnunnar fórum við saman á Ólafsvökuna í Færeyjum með Sjöfn Ingólfsdóttur, hinum varaformanni BSRB, ásamt mökum okkar, Kristínu, Bjarna og Völu og áttum þar ógleymanlega daga.

Í vinnunni fórum við Jens svo tveir einir til Yokohama í Japan að stimpla BSRB inn í heimssamtök starfsfólks í almannaþjónustu, Public Services International. Aldrei fengum við botn í það hvort Japanir misskildu íslenska nafnakerfið eða hvað olli því að við vorum bókaðir í heila viku í eitt og sama herbergið, með einu hjónarúmi, að vísu mjög rúmgóðu. Að þessu áttum við stundum eftir að hlæja og hafa gaman af. En þótt ekki yrði sagt að með okkur hafi verið hjónasvipur var samlyndið ósvikið.

Annars átti Jens að minnsta kosti tvívegis eftir að heimsækja þennan heimshluta og þá sem formaður samtaka opinberra starfsmanna á Norðurlöndum. Þar messaði hann yfir Suður-Kóreumönnum, væntanlega með svipuðum áherslum og í svari sínu til sagnfræðingsins, sem áður er vitnað til, um mikilvægi þess að smíða samfélag sem byggðist á samhjálp og félagshyggju.

Í SFR bókinni, Sögu baráttu og sigra í 70 ár, kemur vel fram mikilvægt framlag Jens Andréssonar á ýmsum sviðum réttindabaráttunnar, hve meðvitaður hann var um mikilvægi menntunar og að einstaklingurinn fengi að vaxa og þroskast út lífið með stöðugri menntun, endurmenntun, símenntun. Þarna verður ekki ofsagt að Jens hafi reynst brimbrjótur í réttindabaráttu launafólks. Rekspölur sem var heitið á endurmenntunarnámskeiðum var því nafngift við hæfi því með þessum hætti var félagsmönnum, sem fengu að njóta, skilað vel áleiðis til þroska og undirbúnings þess að takast á við ný og krefjandi verkefni.

Jens hafði á orði þegar hann var aftur farinn að sinna öryggismálum starfsmanna í járnblendinu að nú væri hann kominn hringinn frá því að hann gegndi störfum hjá Vinnueftirlitinu – í raun væri hann kominn heim.

Ég held hins vegar að Jens Andrésson hafi aldrei farið að heiman í þeim skilningi að hann varð aldrei viðskila við sínar innstu hugsjónir sem leituðu eins og sjálfkrafa fram á varir hans þegar hann svaraði spurningunni í sagnfræðiritinu góða: Styrkur okkar ætti að felast í orðspori, trúnaði og trausti og að aldrei mættum við sem veldumst til trúnaðarstarfa gleyma þvi að það þarf að næra ræturnar. Annars væri hætta á því að við steingervðumst.

Jens Andrésson steingervðist aldrei. Hann gætti þess að hygla aldrei sjálfum sér, fjarlægjast aldrei félagsmenn sína með þeim hætti, huga alla tíð að rótunum, næra þær sem best hann gæti.

Þessa nutum við einnig vinir hans. Við fengum hlutdeild í hlýju hans, trausti og styrk.
Og þannig verður orðspor Jens Andréssonar ætíð varðveitt í okkar huga.

slóð á athöfn: http://www.ohadisofnudurinn.is/utfor/3/?fbclid=IwAR0BZhW_j322PrGmeUsRwHHrYWHRVimYI6sWatX-AvQeIIukYwdpAy7negI