Fara í efni

Minniháttar leiðrétting við meiriháttar mál

Blaðamaður á DV sýnir í dag hvers hann er megnugur í rannsóknarblaða- mennsku. Honum þótti miður að fá ekki viðtal við öryrkjann, sem styr hefur staðið um í fjölmiðlum síðustu daga eftir að ég vakti máls á því að hann hefði verið borinn út með lögregluvaldi í síðustu viku. Blaðamaður reyndi að fá viðtal við manninn en hann neitaði. Sagt var að það væri misráðið því viðtal við DV kæmi honum eflaust til góða. Þá var tekinn upp næst besti kostur, að banka upp hjá nágrönnum og kanna hvort þeir hefðu eitthvað misjafnt um hann að segja. Svo reyndist vera. Ekki veit ég hvort rétt og satt er sagt frá. Hins vegar get ég staðfest að fullyrðingar DV um sjúkdóm mannsins eru ekki réttar – því miður. Betur væri að hann hefði verið laus við krabbasjúkdóm sinn frá 1999 eins og blaðið slær upp. Umræddur maður er með það sem kallast langvinnt eitlakrabbamein sem hefur herjað á hann, vissulega með hléum, en allar götur frá því í lok níunda áratugarins. Svona getur jafnvel vandvirkustu og velviljuðustu rannsóknarfréttamönnum orðið á í messunni. Af minni hálfu er þetta hugsað sem minniháttarleiðrétting við meiriháttar mál – það er að segja fyrir þann einstakling sem í hlut á.