Fara í efni

MILLJARÐAGRÓÐI – HVAÐA LÆRDÓM MÁ DRAGA?

Birtist í Morgunblaðinu 27.08.07.
Í Fréttaviðtali fyrir nokkrum dögum lýsti Jón G. Hauksson, ritstjóri Frjálsrar verslunar, á myndrænan og lifandi hátt hve gríðarmikill hagnaður Kaupþings banka hefði verið á síðasta ári í þjóðhagslegu samhengi. Ritstjórinn minnti á hve dýr Kárahnjúkavirkjun hefði verið og sagði hagnaðinn slaga í helminginn af henni, heil sjö Héðinsfjarðargöng, hálft álver á Reyðarfirði og margfalt árlegt framlag til vegamála í landinu!
Hagnaður Kaupþings banka nam á síðasta ári tæpum 47 milljörðum króna eftir skatta. Síðan þessar tölur voru birtar hafa himinháar hagnaðartölur annarra stórfyrirtækja litið dagsins ljós, svo og tölur um skattgreiðslur stjórnendanna sem endurspegla ofurlaun þeirra. Þá má ekki gleyma að nefna kaup Kaupþings banka á hollenska bankanum NIBC fyrir 267 milljarða.

Auðvelt að komast yfir eignir samfélagsins

 

Í umfjöllun sinni um þessi efni er engu líkara en að ýmsir fjölmiðlar líti svo á að samfélagið sé nánast allt komið á framfæri auðmanna og vilja þeir þá gleyma því að auðurinn er frá samfélaginu kominn; þannig er lífeyrissparnaður launafólks t.a.m orðinn drjúgur hluti af fjárfestingarkapitali heimsins. Það er hins vegar ekki sá þáttur sem ég vildi gera að umræðuefni hér heldur hitt, hve auðvelt það er stóreignafólki að komast yfir þær samfélagslegu eignir sem stjórnmálamenn setja á markað.
Athygli vakti þegar ríkisstjórnin ákvað að selja 15,2% eignarhlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja fyrr á þessu ári að slegið var á það af þeirra hálfu að hlutinn mætti selja á um 2,5 milljarða króna. Fjárfestar voru hins vegar tilbúnir að borga 7,6 milljarða. Þetta segir okkur tvennt. Í fyrsta lagi að fjárfestar telja sig geta grætt vel á samfélagslegri grunnþjónustu. Arðtölurnar nú segja okkur líka hitt að þeir hafa til ráðstöfunar nánast ótakmarkaða fjármuni. Ef þeir hafa peninginn ekki í vasa þá taka þeir hann einfaldlega að láni, vitandi að þeir koma til með að hafa neytandann í greipum sínum og geta náð lánsfjármagninu inn með tíð og tíma fái þeir eignarhaldið í sínar hendur. Þetta geta þeir gert í krafti fákeppni sem alls staðar einkennir þennan einkavædda markað.

Sjálfstæðisflokkur stýrir einkavæðingunni

Þær ríkisstjórnir sem við höfum búið við undanfarinn rúman hálfan annan áratug, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, hafa haft einkavæðingu á dagskrá. Vatnið, rafmagnið og heilbrigðisþjónustan eru smám saman að færast upp á einkavæðingarfæribandið. Það er greinilega freistandi fyrir ríkisstjórnir að selja verðmætar eignir og ná þannig inn fjármunum. Samstarfsaðilar Sjálfstæðisflokksins hafa bognað undan þessari freistingu. Til hins er þá ekki horft að einvörðungu er það selt sem arðvænlegt er og að salan fer aðeins einu sinni fram! Eftir söluna er viðkomandi rekstur kominn í hendur einkaaðila sem þá njóta arðsins. Þegar þetta hefur gerst lýtur starfsemin ekki lengur lýðræðislegri stjórn heldur duttlungum markaðarins. Og hverjir skyldu þeir duttlungar vera?

Ábyrgðin eftir sem áður hjá samfélaginu

 

Fjárfestar á markaði horfa til arðseminnar með hliðsjón af öðrum möguleikum í boði hverju sinni. Þeir hafa ekki til að bera þá nauðsynlegu kjölfestu sem starfsemi almannaþjónustunnar þarf á að halda. Þegar markaðsvædd grunnþjónustufyrirtæki lenda í vandræðum eru fjárfestarnir hlaupnir og hið opinbera verður að hlaupa undir bagga. Um það má nefna mörg dæmi, m.a. frá Bretlandi þegar British Energy, sem heldur utan um fjórðung af breska raforkumarkaðnum, lenti í kröggum og eins frá Frakklandi þegar hlutabréf í vatnsveitusamsteypunni Vivendi Universal höfðu fallið um 80% vegna fjárglæfra eigenda.

Össur og Ríó Tintó

Iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, hefur réttilega bent á slæmt orðspor Ríó Tintó sem nú seilist til áhrifa í áliðnaði, einnig á Íslandi. Sagðist iðnaðarráðherra ekki hafa áhuga á að fá slíka aðila hingað til lands. Vandinn er sá að íslenskur ráðherra hefur ekkert um það að segja hvort fyrirtæki á borð við Río Tintó eignast Hitaveitu Suðurnesja, Landsvirkjun eða önnur orkufyrirtæki sem á annað borð eru sett á markað. Þetta alþjóðlega eðli markaðsvæðingarinnar kom mér einnig í hug þegar Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, kvaðst hrifinn af framtíðarsýn Geysis Green Energy, þess vegna vildi hann að það fyrirtæki kæmi að eignarhaldi Hitaveitu Suðurnesja.
Hvernig sem á málin er litið þá er það afar örlagaríkt að selja frá okkur stofnanir og fyrirtæki sem sinna grunnþjónustu í samfélaginu. Þar með afsölum við okkur þjónustu sem byggir á traustum grunni samfélagslegrar ábyrgðar. Einnig skerðum við lýðræðisleg áhrif þótt ábyrgðin verði áfram okkar – samfélagsins – ef í harðbakkann slær. Sú hefur orðið raunin bæði í bankakreppum og þegar að grunnþjónustu samfélagsins sverfur. Þá hleypur hið opinbera undir bagga. Og eitt er víst og það kennir reynslan: Ekkert er fjármálamönnum auðveldara en að gleypa almannaþjónustuna ef hún á annað borð er sett á markað.