Fara í efni

MIKILVÆG YFIRLÝSING FORSÆTISRÁÐHERRA

Joh.Sig. VATN 31.des 09
Joh.Sig. VATN 31.des 09

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra fjallaði í áramótaávarpi sínu um samfélagið í samtíð og framtíð og setti fram áherslur ríkisstjórnarinnar. Hún vék meðal annars að auðlindum til lands og sjávar og mikilvægi þess að þær væru í þjóðareign. Undir þessi sjónarmið vil ég taka. Alla tíð hef ég verið þeirrar skoðunar að auðlindirnar eigi að vera í þjóðareign. En nú - í þrengingum þjóðarinnar - er þetta mikilvægara en nokkru sinni því sú hætta er raunverulega fyrir hendi að alþjóðlegt fjármagn reyni að læsa klóm sínum um auðlindir okkar.
Fyrir nokkrum árum sameinuðust öll helstu almannasamtök landsins um þá kröfu að vatnið yrði skilgreint sem auðlind í eigu þjóðarinnar. BSRB hafði forgöngu um þessa baráttu. Samtökin vildu að eignarhald þjóðarinnar á vatni yrði bundið í stjórnarskrána.
Yfirlýsingar forsætisráðherra í áramótaávarpinu eru mjög mikilvægar og sérstakt fagnaðarefni. Þessum fyrirheitum þarf nú að fylgja eftir.
Í ávarpi sínu sagði Jóhanna Sigurðardóttir um þetta efni:   
"Efnahagskreppan hefur beint sjónum fólks inn á við og fyrir marga er það nánast ný uppgötvun hversu gjöfult Ísland er. Í ljósi skorts á hreinu drykkjarvatni á stórum heimssvæðum getum við Íslendingar meðal annars verið þakklátir fyrir þá dýrmætu auðlind sem fólgin er í vatninu okkar.
Vatnsskortur er ein helsta orsök fátæktar og sjúkdóma í heiminum. Meira en milljarður manna býr við skort á þeirri lífsundirstöðu sem fólgin er í hreinu vatni og hálfur þriðji milljarður hefur ekki aðgang að vatni sér til hreinlætis. Hatrammar deilur eiga þegar í dag rætur í baráttu um aðgang að vatni - og því er spáð að stríðsátök nýhafinnar aldar muni fremur snúast um vatn en olíu.
Það ætti því að vera eitt af okkar brýnustu verkefnum að þessi ómetanlega auðlind, íslenska vatnið, verði skilgreind í stjórnarskránni sem almannaeign - engu síður en fiskurinn í sjónum. Og sem þjóð þurfum við að beina sjónum okkar að því hvernig við getum nýtt ferskvatnslindir Íslands í þágu heimsins."