Fara í efni

Mikilvæg viðskipti fyrir búlgörsku þjóðina?

Í Svíþjóð þar sem ég er staddur þessa dagana hefur mikið verið fjallað um Búlgaríu í aðdraganda þess að Búlgarir og Svíar háðu kappleik í knattspyrnu. Búlgarir riðu ekki feitum hesti frá þeirri viðureign. Þetta var þó bara saklaus fótboltakeppni. Öðru máli gegnir um viðureign Búlgara við erlenda fjármálamenn. Þar er meiri alvara á ferðum. Í grein sem birtist í Svenska Dagbladet í dag segir að erlendir "fjárfestar" fari nú mikinn í Búlgaríu og hugsi þar gott til glóðarinnar. "Það sem fær erlenda fjárfesta til að kætast yfir er hins vegar tekið með vantrú og efasemdum af hálfu búlgörsku þjóðarinnar", segir í frétt blaðsins. Þar er fjallað um yfirgengilega spillingu. Hægri öflin hafi ráðið lögum og lofum undanfarin ár, margt bendi til þess að þar sé að verða breyting á vegna þess hve stjórnvöld hafa gengið fram af fólki.

Í Fréttablaðinu um helgina sagði frá landvinningum íslenskra manna í Búlgaríu: "Hópur fjárfesta undir forystu Björgólfs Thors Björgólfssonar gekk í gær frá kaupum á 65 prósenta hlut í Búlgarska landssímanum, BTC. Kaupverð hlutarins er 24 milljarðar króna. Með Björgólfi í fjárfestingarfélagi hans, Carrera, eru Straumur, Burðarás og Síminn, en leiðandi fjárfestir með Carrera er fjárfestingafyrirtækið Advent International. Velta BTC var tæpir fimmtíu milljarðar króna og hagnaðurinn á ellefta milljarð. Tæplega 25 þúsund manns starfa hjá fyrirtækinu. Fastlínukerfi BTC nær til allra heimila í Búlgaríu".

Í frétt Fréttablaðsins segir ennfremur: "Pólitísk átök hafa verið um þætti sölunnar í Búlgaríu, en með afhendingu fjarskiptaleyfis á rekstur GSM-kerfis var síðustu hindrun kaupanna rutt úr vegi. Björgólfur þekkir vel til í Búlgaríu og segir hindranir í stjórnmálalífinu hafa bæði komið sér á óvart og ekki". Og síðar segir: "Það er ekki fyrir bissnessmenn að skilja pólitíkusa né fyrir pólitíkusa að skilja bissnessmenn. Það fer ekkert saman, en allt er gott sem endar vel og þetta eru mikilvæg viðskipti fyrir búlgörsku þjóðina".

Ekki virðast Búlgarir almennt vera á þessari skoðun. Ef við stillum dæminu upp og setjum okkur sjálf í spor búlgörsku þjóðarinnar og það væri eignarhaldið á íslenska Landsímanum sem væri á leið úr landi. Værum við sátt við það?

Sjá fyrri skrif um sama efni hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/bjorgolfur-og-bandarikin-lysa-ahyggjum