Fara í efni

Mikilvæg umræða um fjölmiðlafrumvarp

Í þjóðfélaginu hefur kviknað mikil umræða um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Ég tel mjög mikilvægt að þessi umræða fái að dafna og þróast en verði ekki kæfð niður með því að keyra frumvarpið í gegnum þingið með offorsi. Helgi Guðmundsson, hinn eini sanni hágé, spyr í pistli hér á síðunni í dag hver sé afstaða þingflokks VG til frumvarpsins. Ólína beinir einnig áleitnum spurningum til okkar um afstöðu Framsóknar til málsins.
Ég hef lýst afstöðu minni í þingræðu í dag og í pistlum hér á síðunni. Ég tel að hér sé á ferðinni grundvallarmál sem verði að fá yfirvegaða umfjöllun. Það er sérstakt að verða vitni að því að hægri menn skuli loksins viðurkenna að það geti gerst, að fjármagnið ráði of miklu í þjóðfélaginu. Betur hefðu þeir komið auga á það áður en þeir afhentu mönnum með "ráðandi stöðu á markaði" meirihlutavald yfir stærstu bankastofnunum landsins. Það gerðu þeir þegar ríkisbankarnir, Landsbankinn og Búnaðarbankinn voru einkavæddir en sem kunnugt mala þeir nú gullið fyrir nýja eigendur sína, sem beita þeim jafnframt óspart í valdatafli um áhrif í þjóðfélaginu. Engrar viðleitni hefur orðið vart af hálfu ríkisstjórnarmeirihlutans til að tryggja þar dreifða eignaraðild.
Mín skoðun varðandi banakana var sú, að besta vörnin gegn samþjöppun á fjármálamarkaði væri eignarhald ríkisins á að minnsta kosti einum þjóðbanka. Á sama hátt tel ég, að heppilegasta leiðin til að koma í veg fyrir einokun á fjölmiðlamarkaði, sé að styrkja Ríkisútvarp í almannaeign. Áður en botn er fenginn í umræðu um framtíð þess tel ég ekki unnt að taka afstöðu til þess hvort og þá hvernig skorður skuli reistar gegn samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Ég tel það vera mikinn ábyrgðarhlut að flana hér að lagasetningu. Í lesendabréfi hér á síðunni í dag, sem vísað var til hér að framan, frá Ólínu, er vakin athygli á því að Davíð Þór Björgvinsson, formaður nefndarinnar sem vann fjölmiðlaskýrsluna, hafi skýrt frá því að hann geri sér ekki grein fyrir því hvaða áhrif löggjöfin kæmi til með að hafa á rekstur Norðurljósa, - regnhlífarinnar yfir Stöð 2, Bylgjunni, Sýn, Fréttablaðinu, DV og fleiri fjölmiðlum. Aðvitað skiptir okkur máli hver verða afdrif þessara fjölmiðla. Þessi mál verður að skoða heildstætt og af yfirvegun. Því miður bendir margt til þess að vilji standi ekki til þess af hálfu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.