Fara í efni

MIKIÐ UM HAMINGJUÓSKIR

DV -
DV -

Birtist í DV 26.07.13.
Í Landsbankanum hefur gengið á með hamingjuóskum undanfarna daga. Ekki að undra kann einhver að segja því tilkynnt var að starfsmenn væru í þann veginn að eignast ígildi nokkurra milljarða í bankanum.  Eins og fram hefur komið í fréttum fá starfsmennirnir greitt hlutfallslega í samræmi við laun sín. Því hærri  laun þeim mun stærri eignarhlutur. Samkvæmt fréttum var meðaltekjumaður í bankanum að fá um 3 milljónir fyrir skatt.  Hærri kanturinn fékk mun meira og hátekjufólkið mest, í einhverjum tilvikum yfir 10 milljónir króna.  Það eru tvenn til þrenn árslaun lágtekjumanns!

Hagsmunir fari saman

Bankastjóri Landsbankans skrifaði hinum lukkulegu starfsmönnum bréf þar sem hann ávarpaði  þá, óskaði þeim til hamingju með (útborgunar)daginn og sagði að mikilvægt væri að „hagsmunir" þeirra og bankans „fari saman".
Mótmælaalda reis í þjóðfélaginu. Formaður bankaráðs bankans steig þá fram og sagði að þetta væri liðin tíð - allt byggði þetta á löngu tekinni ákvörðun og heyrði gærdeginum til, ekki morgundeginum. Þetta tvennt þótti mér góðs viti - mótmælin og þessi yfirlýsing bankaráðsformannsins. En hversu djúpt ristir þetta, hver verður veruleikinn þegar fram í sækir? Þar vakna mínar efasemdir og ekki síst með hliðsjón af minningunni frá aðdraganda hrunsins. Oftar en ekki var nefnilega mótmælt og tímabundið dregið í land en síðan keyrt áfram á fullu blússi í samræmi við boðskap samtímans um að gott og eftirsóknarvert væri að græða sem mest.

Keyptir málaliðar kröfuhafa

Margrét heitin Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, sagði ekki aðeins að hún teldi græðgi vera góða og eftirsóknarverða eins og frægt varð, hún sagði einnig að mikilvægt væri að gera alla að litlum kapítalistum; gera alla að hagsmunaðilum í sókn eftir gróða og þar með að varðstöðufólki fyrir hið kapítaliska kerfi. Þetta var líka hugsunin hjá kröfuhöfunum í gamla Landsbankabúið þegar þeir gerðu heyrinkunnugt að þeir vildu að stjórnendur og höfuðrukkararnir  í bankanum fengju bónusa . Hugsunin var þá sú að þannig gengju bónushafar harðar fram gagnvart þeim sem skulduðu bankanum. Ríkið, sem átti, og á enn, Landsbankann þráaðist við og vildi meiri dreifingu á hvatabónusa af þessu tagi. Niðurstaðan varð sú að dreifa þessum greiðslum á starfsmenn almennt en þó tekjutengt sem áður segir.

Verðlaun fyrir hvað?

Eftir stöndum við uppi með gjörð sem engan veginn er réttlætanleg. Að sjálfsögðu átti aldrei til þessara greiðslna að koma. Eða hvers vegna ætti að verðlauna starfsmenn lánastofnunar umfram annað launafólk sem sinnir vinnu sinni af alúð og trúmennsku, sjúkraliðann, lækninn, kennarann eða lögreglumaninn? Allt er þetta fólk verðugt launa sinna ekki síður en almennir starfsmenn banka  og lánastofnana sem að sjálfsögðu eiga að fá sanngjörn laun fyrir störf sín.
Spyrja má hvort hagsmunir þeirra sem vinna heiðarleg störf fari ekki saman við hagsmuni þeirrar stofnunar eða þess fyrirtækis sem starfað er fyrir; og fara ekki hagsmunir heiðarlegra fyrirtækja almennt saman við hagsmuni samfélagsins í heild sinni? Að sjálfsögðu er það svo. En það var ekki þetta sem vakti fyrir kröfuhöfunum með umræddum bónusgreiðslum. Það var annað og meira.

Stigu út fyrir siðferðismörk

Og það er hér sem sporin hjá bönkunum hræða.  Það má ekki gleymast í þessu samhengi að bankarnir stigu út fyrir öll siðferðismörk í aðdraganda hrunsins með því að fá starfsfólk til fylgilags og framkvæmda í vægast sagt vafasömu atferli. Þannig var til dæmis hringt í viðskiptavini og þeir hvattir til að taka peninga sína út af reikningum þar sem þeir voru tryggir og fjárfesta í sjóðum og hlutabréfum sem fólkið tapaði síðan í hruninu. Þetta var gert þegar stjórnendum var kunnugt um hvað ætla mætti að væri framundan. Ég spyr hvort  óþurftarverkefni  af þessu tagi hafi verið knúin áfram með hvatagreiðslum í anda Margrétar Thatchers; greiðslum sem ætlað er að gera alla að tannhjólum í fjárplógsvélum og gróðagangverki fjármálastofnana?

Hagsmunir hverra?

Það er nefnilega ekki sama hvað átt er við þegar talað er um mikilvægi þess að „hagsmunir fari saman". Við skulum ekki gleyma því að bónusgreiðslurnar nú eiga, sem fyrr segir, rót að rekja til mjög harðdrægra kröfuhafa  sem vildu miklu til kosta að fá stjórnendur bankanna og þess vegna flesta sem þar störfuðu, til að ganga sem harðast fram í innheimtustörfum og þar með drýgja þeirra eigin hlut. Hugsunin var því sú að hagsmunir kröfuhafa og starfsmanna færu saman gegn hagsmunum hinna skuldugu, sem þegar stóðu höllum fæti með þunga vexti og verðtrygginu á bakinu í miðjum brunarústum efnahagslífsins.

Láti gott á vita

Ég ítreka að gott þótti mér að heyra þann ásetning formanns bankaráðsins að þetta væru vinnubrögð og hugmynfdafræði sem heyrðu liðinni tíð. Láti gott á vita. Við skulum fylgjast með efndum þeirra orða. Því miður bendir þó  óhugnanlega margt til þess að bankarnir séu endurrisnir í svipaðri mynd og með svipaða hugmyndafræði að leiðarljósi og fyrir hrun. Með öðrum orðum, að þar svífi andi Thatchers enn yfir vötnunum.
En þessu má breyta. Og orð eru til alls fyrst.

Ég sting upp á að í ramma verði: „Hugsunin var þá sú að þannig gengju bónushafar harðar fram gagnvart þeim sem skulduðu bankanum."

eða:
„Hugsunin var því sú að hagsmunir kröfuhafa og starfsmanna færu saman gegn hagsmunum hinna skuldugu, sem þegar stóðu höllum fæti með þunga vexti og verðtrygginu á bakinu í miðjum brunarústum efnahagslífsins."