Fara í efni

Mér finnst Svavarsvæðingin góð

Svavar Gestsson fyrrverandi alþingismaður var einhver duglegasti og ódeigasti baráttumaður í hreyfingu sósíalista um árabil. Svavar hamaðist í pólitík lengur en flestir hafa gert og sér víða stað verka hans. Löngum þótti mér mikið til Svavars koma sem stjórnmálamanns og saknaði þess þegar hann hvarf af vettvangi stjórnmálanna, mér liggur við að segja fyrir aldur fram. Í Féttablaðinu í gær er því slegið upp að VG sé að "Svavarsvæðast" og er undirtónninn sá að þetta sé af hinu illa. Skírskotað er til þess að fólk nákomið Svavari Gestssyni sé farið að láta að sér kveða í VG og er þar væntanlega átt við Svandísi Svavarsdóttur formann VG í Reykjavík, Odd Ástráðsson, nýkjörinn formann Ungra Vinstri Grænna, Guðnýju Dóru Gestsdótur, sem starfað hefur á vettvangi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og Gest Svavarsson, nýkjörinn formann Vinstri grænna í Hafnarfirði. Allt er þetta sérstakt öndvegisfólk og mikill fengur fyrir hreyfinguna að fá til liðs við sig. Ef menn vilja kalla þetta Svavarsvæðingu, þá styð ég hana heilshugar. Ekki ætla ég að gera upp á milli þessa fólks en sem flokksfélagi í Reykjavík vil ég segja að Svandís Svavarsdóttir, formaður okkar, er geislandi baráttukona. Hún hefur haldið yfir okkur ræður sem hafa vakið athygli fyrir það hve vekjandi og frumlegar þær hafa verið. Henni er einstaklega lagið að kveikja baráttuandann í hjörtum okkar.

Hræringar hafa verið innan VG að undanförnu og hefur þar verið nokkuð um heitingar, m.a af hálfu einstaklinga sem eru mér kærir og ég met mikils. Um sumt sem sagt hefur verið hef ég ekki verið sammála; sumt hef ég meira að segja verið mjög ósáttur við. En hitt, að saman komi hópur félaga í VG, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, til að ræða áherslur í flokksstarfinu og þess vegna gagnrýna okkur sem erum á þingi eða annars staðar í forsvari fyrir flokkinn, er nokkuð sem allir ættu að forðast að leggja út á versta veg. Þarna er um að ræða marga gamalgróna baráttujaxla, fólk sem hefur staðið í áratugi í eldlínunni og unnið hreyfingunni ekki síður en hinir sem starfað hafa undir kastljósi fjölmiðlanna. Hvorki ég né nokkur annar ætti að reyna að segja þeim fyrir verkum þótt að sjálfsögðu viljum fá umræðuna inn á formlegan vettvang flokksins. Innan VG höfum við borið gæfu til að hlusta hvert á annað og það munum við vonandi gera um ókominn tíma og án efa mun okkur nú sem fyrr takast að beina kröftum okkar inn í velviljaðan og uppbyggilegan farveg.