Fara í efni

MENNINGARHÁTÍÐ MARKÚSAR ARNAR

Áramótaávörpin, skaupið og annað hafa dunið yfir okkur þessi áramót eins og önnur. Sumt prýðilegt, annað ágætt, enn annað lakara og sumt ekki upp á marga fiska. Mér þykir Markús Örn Antonsson, útvarpsstjóri RÚV, eiga vinninginn þessi áramót. Hann hefur fundið aldeilis frábæra formúlu fyrir sitt framlag og framkvæmir hana mjög vel.

Sennilega er hlutskipti Markúsar Arnar erfiðast allra áramótamanna. Hann kemur á skjáinn rétt fyrir miðnættið þegar óþol er komið í mannskapinn, fólk vill skála og sprengja. Markúsi hefur hins vegar tekist að finna leið til að ná athygli okkar. Hann býður upp á sögulega og menningarlega veislu. Í fyrra var það Sigvaldi Kaldalóns, tónskáldið ástkæra og áherslan á Vestfirði þar sem hann bjó um skeið, í Ármúla á Snæfjallaströnd skammt frá Kaldalóni. Að þessu sinni voru það Austfirðir og listamennirnir þaðan, Ingi T. Lárusson og fleiri frábærir einstaklingar sem hafa miðlað okkur list sinni. Fram komu núlifandi austfirskir listamenn og fluttu verk fyrri tíðar manna. Markús Örn Antonsson vann sitt verk afar vel og á lof sklið. Frá þessari vefsíðu fær hann bestu þakkir fyrir sannkallaða menningarhátíð. Það sem lofsverðast var við þetta framtak var mikill undirbúningur og hæfileikar flytjenda, frábær skemmtun.