Fara í efni

MENNING OG LÝÐRÆÐI

Birtist í Morgunblaðinu 11.05.07.
Í byrjun marsmánaðar birtist í Blaðinu viðtal sem Kolbrún Bergþórsdóttir átti við fráfarnadi forstöðumann Listasafns Íslands, Ólaf Kvaran. Viðtalið var ekki ýkja langt en þeim mun innihaldsríkara. Í viðtalinu kallar Ólafur eftir stefnumörkun í menningarpólitík og hvetur til þess að við nálgumst þá umræðu frá víðu sjónarhorni. "Í velferðarsamfélagi eins og okkar tölum við gjarnan um rétt fólks til heilbrigðisþjónustu. Á sama hátt er eðlilegt og mikilvægt að tala um rétt fólks til menningar og aðgengis að henni. Það er að sjálfsögðu alltaf pólitísk spurning hvað ríkisvaldið  á að vera sterkt í þessari uppbyggingu eða hvort á að láta hana alfarið í hendurnar á hinum frjálsa markaði sem stofnanir eins og Listasafnið verða þá háðar. Af einhverjum ástæðum hefur ekki orðið pólitísk umræða í samfélaginu um þessa stöðu menningarstofnana og þá um leið rétt fólks til menningar sem hluta af eðlilegum lífsgæðum. Í menningarumræðu þarf pólitíska stefnumörkun. Þetta er meðal annars spurning um hvað menningarstofnanir eigi að vera sterkar þannig að þær geti sinnt hlutverki sínu og um leið er þetta spurning um sterkt eða veikt samfélag."
Þetta eru orð að sönnu og eiga erindi inn í póltíska umræðu í aðdraganda kosninga.
Hér er talað um rétt fólks til menningar og byggt á þeirri hugsun að allir eigi að búa möguleika á því að lifa innihaldsríku menningarlífi.
Í öðru lagi er vakin athygli á því að með því að gera menningarstofnanir háðar markaðnum um fjárframlög undirgangist þær jafnframt áhrif hans og vald.
Þá segir Ólafur Kvaran að spurningin snúist ekki um það eitt að gera menningarstofnanir sterkar og öflugar heldur samfélagið allt.
Greinilega má ráða af viðtalinu við fyrrum forstöðumann Listasafns Íslands að hann lét ekki landslagið ekki rugla áttirnar. Í starfi sínu sem forstöðumaður Listasafns Íslands, leitaði hann til allra þeirra sem honum leist vera líklegir til að styðja aðgang almennings að menningu. hann þakkar framlög fyrirtækja með sama hætti og enginn hafnar lækningu þótt læknirinn sé “prívat”, né menntun sem er einkarekin..

 Samfélagsleg ábyrgð

Ég vil taka undir þá meginhugsun Ólafs Kvaran að líta eigi á menningu sem mikilvægan þátt í velferðarsamfélaginu sem varðar lífsgæði og lýðræði. Á komandi kjörtímabili er brýnt að efnt verði til breiðrar umfjöllunar og samræðu á milli stjónmálamanna, skólasamfélagsins, samtaka listamanna og alls almennings um að leita leiða til setja ákveðin markmið, til þess að styrkja menningarlífið, í þeim tilgangi að efla listræna sköpun, styrkja stofanir þess og aðgengi almennings. Nauðsynlegt er að gera útttekt á rekstrargryndvelli og fjárveitingum ríkisins til þessa málaflokks í heild sinni, bæði til skapandi lista og stofnana eins Þjóðleikhússins, Þjóðarbókhlöðu, Listasafns Íslands, Þjóðminjasafns, Sinfóníuhljómsveitar Íslands auk annarra stofnana og spyrja hvort fjárveitingar - sem er helsta stjórntæki ríkisins - séu í takti við eðlilegar væntingar almennings og með hvaða hætti hægt sé að efla þátttöku almennings í menningarstarfsemi af ýmsu tagi.
Í þessari umræðu er mikilvægt að ræða um ábyrgð samfélagsins - ríkisins og sveitarfélaga - á menningunni og menningararfinum og spyrja m.a. annars hvort eðilegt sé að helstu menningarstofnanir Íslands sem fjalla um mikilvæga þætti í sjálfsmynd okkar sem þjóðar og sögu verði fyrst og fremst háðar fjárveitingum og stuðningi fyrirtækja. Hvaða áhrif hefur það á starfsemi þessara stofnana og alls menningarlífsins að þannig sé um hnútana búið? Er það eðlilegt að einkafjármagnið stýri þessari þróun? Að hve miklu leyti getur það haft áhrif á viðfangsefni stofnana menningarlífsins? 

Brú á milli heima

Öflugt og fjölbreytt menningarlíf, sem tekur til samtímamenningar og menningararfs er ekki bara mikilvægt með hliðsjón af sjálfsmynd okkar sem þjóðar í þeirri miklu alþjóðavæðingu sem á sér stað heldur einning mjög mikilvægt sem leið eða brú fyrir þá stóru hópa fólks sem eru að flytjast til Íslands. Þótt menning þjóðar byggi á hefðum og arfleifð sem á sér djúpar rætur er menningin jafnframt sameinandi. Hún brúar bil á milli ólíkra heima.
Ólafur Kvaran, fráfarandi forstöðumaður Listasafns Íslands hefur kallað eftir umræðu um menningarpólitík. Sú umræða hefði mátt vera meiri í aðdraganda þessara Alþingiskosninga. Reyndar hefur umræða af þessu tagi verið af mög skornum skammti hér á landi á liðnum árum. Það er kominn tími til að breyta því.