Fara í efni

Menn kynni sér málin áður en þeir skjóta

Steinþór Heiðarsson sagnfræðingur skrifar í dag pistil þar sem hann varpar sögulegu ljósi á Írak. Það væri þess virði að íslenskir ráðamenn gæfu sér tóm til að hugleiða sögu Íraks og nánasta heimshluta síðustu áratugina. Þá kemur nefnilega í ljós hversu holur tónninn er í yfirlýsingum Bandaríkjastjórnar og þeirra sem fylgja henni gagnrýnislaust að málum. Þá rennur upp fyrir okkur að Íraksdeilan er sett á svið til að þjóna hernaðarlegum og efnahagslegum hagsmunum Bandaríkjanna. Fylgispökustu bandamenn Bandaríkjastjórnar hafa aldrei fram að færa nokkra gagnrýni. Það á því miður við um ríkisstjórn Íslands. Íslensku ráðherrarnir snúast eins og vindhanar. Maður veit jafnan hvernig blæs í Washington þann daginn  þegar maður heyrir utanríkisráðherra Íslands úttala sig um Írak. “Tíminn er að renna út”, segir Halldór þessa dagana. Þá veit maður að Bush er mál að skjóta. En væri ekki ráð að okkar fulltrúar kynni sér hvert skotmarkið er áður en gengið er til liðs við byssumanninn? Steinþór Heiðarsson gefur okkur nokkra “Minnispunkta fyrir stríðið” í frjálsum pennum í dag.