Fara í efni

Menn axli ábyrgð

Birtist í Mbl
Í grein eftir undirritaðan sem birtist í Morgunblaðinu í gær og nefndist „Lífeyrissjóðirnir og stóriðjuáformin,“ fjallaði ég um gagnrýni Stefáns Péturssonar fjármálastjóra Landsvirkjunar á afstöðu mína til þess að LSR eigi ekki að svo komnu að taka þátt í könnunarviðræðum um fjármögnun lífeyrissjóðanna á stóriðjuframkvæmdum stjórnvalda. Í greininni benti ég m.a. á að fram til þessa hafa sjóðirnir ekki komið að viðræðum um fjárfestingakosti fyrr en þeir eru fyrir hendi en með þessum viðræðum er ætlunin að skapa fjárfestingarkost því aðkoma lífeyrissjóðanna hefur ekki eingöngu fjárhagslega þýðingu heldur einnig félagslega.

Umræðan verði fyrir opnum tjöldum.

Í þessari grein ætla ég að víkja að þeirri ábyrgð sem ég er sammála fjármálastjóra Landsvirkjunar um að mér beri að axla gagnvart því fólki sem varðveitir lífeyrissparnað sinn í LSR. Nákvæmlega þetta hefur mótað aðkomu mína að þessu máli. Reynt hefur verið að gera afstöðu mína innan stjórnar LSR tortryggilega í ljósi skoðunar minnar á stóriðjuáformum ríkisstjórnarinnar. Svo öllu sé til haga haldið þá skal ég fúslega viðurkenna að mér hugnast stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar illa og væri andvígur því að nota fjármagn lífeyrissjóðanna til þess að spilla landi okkar eins og áform eru uppi um. Í þeirri umræðu sem fram hefur farið innan stjórnar LSR hafa það þó verið fjárhagslegir þættir sem hafa verið til umfjöllunar og þar hefur aðferðafræðin við að meta aðkomu okkar að málinu og áhættuþættir fyrst og fremst verið til umræðu. Það er mikill misskilningur ef menn halda að stjórn LSR sé að hrapa að ákvörðunum að óathuguðu máli. Ég held að óhætt sé að fullyrða að stjórnarmenn í LSR séu mjög vel upplýstir um þessi mál og hafi lagt sig sérstaklega eftir því að kynna sér þær staðreyndir sem þekktar eru, þar á meðal um áhættuþátt fjárfestinganna.

Ekki var það ég sem varð til þess að benda á að fjárfesting í álfyrirtæki á borð við það sem nú eru áætlanir uppi um væri áhættusöm. Í nokkrar vikur hefur farið fram ítarleg umræða á síðum dagblaðanna og í ljósvakamiðlum þar sem sérstaklega hefur verið bent á áhættuþættina og nú þegar aðkoma lífeyrissjóðanna hefur verið rædd opinberlega hefur jafnan verið skírskotað til hennar sem áhættufjárfestingar af hálfu þeirra sem stýra viðræðunum. Þetta virðist mér óumdeilt. Í þessu sambandi hef ég hvatt til mikillar varfærni og jafnframt vísað í lög um lífeyrissjóði þar sem segir að þeim beri að hafa öryggissjónarmið að leiðarljósi. Það er einvörðungu hagur lífeyrisþega sem ég hef haft að leiðarljósi í afstöðu minni innan LSR. Gagnrýni í minn garð virðist fyrst og fremst byggja á því að ég neita að fara með þessa umræðu á bak við tjöldin. Þetta virðist mér vera minn stóri glæpur. Ég tel hins vegar mikilvægt að þessi umræða þurfi öll að fara fram í dagsljósi og ég tel það beinlínis vera hættulegt í þessu flókna og umdeilda máli að sveipa það leyndarhjúp.

Mótsagnir hjá Landsvirkjun.

Í afstöðu Landsvirkjunar er að finna ýmsar mótsagnir. Annars vegar er að skilja á fjármálastjóranum að álver muni gefa af sér mikinn arð og sé vænlegur fjárfestingarkostur fyrir lífeyrissjóði. Forsenda þessa er væntanlega hagstætt raforkuverð. Þegar gengið hefur verið á Landsvirkjun um þetta efni verður fátt um svör. Í ljósi þess að fjármálastjórinn virðist nú áhugasamur um að tjá sig opinskátt ætla ég að leyfa mér að biðja hann að upplýsa hvert hann telji að raforkuverðið þurfi að vera til þess að uppfylla loforð stjórnvalda um að þá aðeins verði ráðist í þessar framkvæmdir að þær skili Landsvirkjun nægilegum arði til að lækka raforkuverð til landsmanna um 20 til 30 % á næsta áratug. Þetta er að sjálfsögðu mikilvægt að vita fyrir fjárfesta sem standa frammi fyrir „viðskiptaákvörðunum“ af því tagi sem fjármálastjóri Landsvirkjunar gerir að umræðuefni í fyrrnefndri blaðagrein sinni.