Fara í efni

MEINT TREGÐA INNANRÍKISRÁÐUNEYTISINS

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Morgunblaðinu 15.01.11.
Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður hefur farið mikinn í fjölmiðlum undanfarna daga vegna máls drengs sem fæddist á Indlandi í nóvember sl. Sigurður Kári veit mætavel að erfitt er fyrir mig sem innanríkisráðherra að bregðast við fullyrðingum og spurningum um málefni einstaklinga eins og hann setur fram í opnu bréfi til mín í Morgunblaðinu 12. janúar sl. Ég kemst hins vegar ekki hjá því að svara Sigurði Kára þar sem hann hefur ákveðið að nýta sér þetta mál, sem snertir örlög lítils drengs, indverskra hjóna og íslenskra hjóna, í pólitískum tilgangi.
Ég staldra mjög við fullyrðingar Sigurðar Kára um „tregðu" innanríkisráðuneytisins í málefnum barnsins. Slíkar fullyrðingar hafa átt fylgi að fagna í fjölmiðlum, sem hafa sumir hverjir fjallað af mikilli óvarkárni um þetta viðkvæma mál og ítrekað slegið fram röngum fullyrðingum. „Tregða" innanríkisráðuneytisins hefur einfaldlega verið fólgin í því að fara eftir lögum og reglum og standa við alþjóðlegar skuldbindingar.
Þannig hefur ráðuneytið farið fram á að þegar barn er fætt af staðgöngumóður og ætlað að flytja til Íslands sé skýrt hver fari með forsjá viðkomandi barns og hverjir teljist réttmætir foreldrar þess. Þær kröfur hafa ekki með einstaklinga að gera heldur einfaldlega skuldbindingar Íslands gagnvart réttindum barna.

Samskipti við Indland

Innanríkisráðuneytið hefur reynt eftir fremsta megni að leiðbeina og aðstoða fólk sem sækir um ríkisfang fyrir börn sem fædd eru með staðgöngumæðrun. Íslensk stjórnvöld geta hins vegar ekki upp á sitt eindæmi ákveðið hver fer með forsjá barns sem fætt er af erlendri konu í öðru landi. Þetta veit Sigurður Kári. Hann veit líka að aðeins lögmætir forsjáraðilar geta sótt um vegabréf fyrir hönd barna sinna og að ómálga barn getur ekki gert það sjálft.
Í þessu tilfelli hafa íslensk stjórnvöld upplýst indversk stjórnvöld um samþykki Alþingis á veitingu ríkisborgararéttar til barnsins og óskað eftir því við indversk stjórnvöld að fá úr því skorið hvort barnið sé einnig indverskur ríkisborgari og hvort þeim skilningi íslenskra stjórnvalda að íslensku hjónin fari með forsjá barnsins sé mótmælt af hálfu Indlands. Því fer fjarri að innanríkisráðuneytið eða utanríkisráðuneytið hafi dregið lappirnar í þessu máli. Frá því að fyrst var haft samband við innanríkisráðuneytið vegna málsins, hinn 18. nóvember sl., hafa starfsmenn ráðuneytisins unnið að því að skýra stöðu barnsins þannig að réttar þess sé gætt.
Eins og staðan er núna bíða íslensk stjórnvöld viðbragða indverskra stjórnvalda. Ég get því miður ekki fullyrt um hvenær þau liggja fyrir. Það sem að okkur snýr er hins vegar að hafa öll gögn tilbúin af hálfu íslenskra stjórnvalda þannig að um leið og viðbrögð eru ljós sé hægt að leiða málið til lykta þegar í stað. Ég vona að þessa sé mjög skammt að bíða.

Alþjóðlegt áhyggjuefni

Þetta er í fyrsta sinn sem mál barns fætt af staðgöngumóður á Indlandi ratar inn á borð íslenskra stjórnvalda með þessum hætti. Lagarammi utan um staðgöngumæðrun þar í landi þykir óljós og réttarstaða þessara barna að sama skapi. Stjórnvöld annarra Evrópuríkja hafa glímt við sambærileg mál og ríkisborgarar þeirra þurft að dvelja á Indlandi á meðan úr þeim málum er leyst. Einmitt vegna þessara vandamála hafa Evrópuríki og jafnframt Evrópusambandið hvatt Indverja til að hafa lagaramma um staðgöngumæðrun skýran og ótvíræðan; til að vernda nýburana sem um ræðir, staðgöngumæðurnar og tilvonandi foreldra.
Umræðan um staðgöngumæðrun nær langt út fyrir málefni einstaklinga. Hún er alþjóðleg og snertir á mörgu því viðkvæmasta sem fram fer í samskiptum ríkra jarðarbúa og fátækra. Þetta veit Sigurður Kári og í þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun, sem nú liggur fyrir Alþingi og hann er meðal flutningsmanna að, er gerð grein fyrir þeim áhyggjum að staðgöngumæðrun gegn greiðslu bjóði alvarlegum hættum heim. Þar segir m.a.: „Nokkur siðferðileg álitaefni vakna þegar rætt er um möguleikann á lögleiðingu staðgöngumæðrunar. Almennt eru menn neikvæðir gagnvart staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni út frá því sjónarmiði að verið sé að nota líkama konu í annarlegum tilgangi og einnig væri hægt að líta á slíka gjörð sem einhvers konar form af viðskiptum með börn. Staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni hefur verið líkt við vændi og hugsanlegt er að konur sem búa við fátækt og þröngar félagslegar aðstæður gerist staðgöngumæður vegna slæmra aðstæðna. Þessi álitamál eiga þó betur við um samfélög þar sem mikil fátækt er ríkjandi og heilbrigðisþjónusta og samfélagsform er með öðru sniði en í vestrænum löndum, t.d. á Indlandi."
Þessar hættur eru raunverulegar þótt alhæfingar geti verið varasamar á þessu sviði eins og í öðru. Einmitt þess vegna verða íslensk stjórnvöld, líkt og stjórnvöld annarra ríkja sem glíma við sambærileg mál, að gæta þess í hvívetna að rétt sé staðið að málum í þessum efnum. Ef menn á annað borð vilja taka þessa umræðu þarf að gera það heiðarlega en ekki með ómaklegum dylgjum.

Óskað velfarnaðar

Ég ítreka að málið er gríðarlega viðkvæmt og allir hlutaðeigandi auðsæranlegir. Sársaukinn getur orðið mikill þegar almenn umræða er heimfærð á einstök tilvik. Þess vegna hef ég viljað forðast að samtvinna þetta tiltekna persónulega mál umræðu sem við þó erum nauðbeygð að taka ef við ætlum að vera sjálfum okkur samkvæm.
Í Kastljósi fyrir fáeinum dögum bar Sigurður Kári mig þungum sökum. Minn glæpur er þá væntanlega sá að vilja búa svo um hnúta að farið sé að lögum og reglum sem settar eru til varnar mannréttindum.
Ég óska fjölskyldunni á Indlandi alls góðs og vonast til að hún verði komin heim til Íslands sem allra fyrst.

(Við birtingu féll síðasta málsgrein niður en var leiðrétt í Morgunblaðinu 18. jan.)