Fara í efni

MEÐHJÁLPARI FÆR KLAPP Á KOLLINN

Fréttabladid haus
Fréttabladid haus

Birtist í Fréttablaðinu 22.09.08.
Ágætur þingmaður Samfylkingarinnar sagði í laugardagsþætti Hallgríms Thorsteinssonar fyrir viku að flokkur sinn hefði verið stofnaður um velferðarþjónustuna. Ég saknaði þess að viðkomandi var ekki spurður hvers vegna Samfylkingin kæmi þá ekki velferðarkerfinu til varnar þegar að því væri sótt. Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, messaði yfir félögum sínum í Valhöll um helgina. Hann lofaði og prísaði Samfylkinguna, sagði að án hennar hefði ekki verið hægt að koma á lögum um nýja sjúkratryggingastofnun, sem væri forsenda þess að koma mætti á markaði með heilbrigðiskerfið. Hann lýsti þeim gleðilega áfanga að samskiptin innan heilbrigðisþjónustunnar yrðu hér eftir viðskiptalegs eðlis, það er á milli kaupenda og seljenda. Síðan var það látið fylgja með sögunni að ríkissjóður eigi að borga brúsann hvort sem um opinberan „seljanda þjónustu" væri að ræða eða einkarekinn. Jafnan yrði hins vegar leitað að hagstæðasta tilboði.

En hvers vegna hefur það þá ekki verið gert? Hvers vegna hafa ríkisstjórnir og bæjarstjórnir þar sem flokkur Geirs H. Haarde hefur ráðið ítrekað gert samninga við fyrirtæki sem eru dýrari fyrir skattborgarann en buðust af hálfu opinberra aðila? Aulagangur? Varla. Einkavinavæðing? Líklegra.

Ef það er stefna Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að heilbrigðisþjónustan sé borguð með skattfé, eins og klifað er á meðan verið er að koma kerfisbreytingum í gegn, hvers vegna er heilbrigðisþjónustan þá ekki gerð gjaldfrjáls? Hvers vegna þetta ósamræmi á milli orða og athafna? Hvers vegna hefur verið bætt í gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu? Hvers vegna vinnur nú nefnd undir verkstjórn Péturs H. Blöndals að því að dreifa kostnaði á milli sjúklinga í kerfinu en ekki draga úr honum gagnvart sjúklingum sem heild?

Fyrir kjósendur Samfylkingarinnar hlýtur það að vera umhugsunarefni þegar flokksforystu þeirra er klappað á kollinn á þeim forsendum sem nú er gert. Getur verið að Samfylkingarforystan vilji raunverulega markaðsvæða heilbrigðiskerfið eða er löngunin til að fá að halda sig innan veggja Stjórnarráðsins svo rík að öllu sé fórnandi; jafnvel að gerast þjónn og meðhjálpari við einkavæðingu heilbrigðiskerfisins á Íslandi.

Höfundur er alþingismaður.