Fara í efni

MEÐ TÍU MILLJÓNIR Í AUGUNUM

Vertu Viss - RÚV - rétt
Vertu Viss - RÚV - rétt

Íslandsspil og RÚV ohf hafa sameinast um fjölskylduþátt á laugardagskvöldum sem greinilega er hugsaður sem einskonar kennsluþáttur í fjárhættuspili. 

Án efa þykir þeim sem kosta þáttinn auk RÚV ohf - og þá horfi ég til þeirra sem standa að Íslandsspilum, Rauða krossinum á Íslandi, Slysavarnafélaginu Landsbjörg og SÁÁ - sig þarna hafa fundið ráð til að æsa upp auragirndina þannig að þau sem háð eru spilafíkn hlaupi út í næsta spilakassa.

Það er vissulega hagur þessara kassa-rekenda skoðað frá þröngum eiginhagsmunum. En skyldi Rauða krossinum á Íslandi, Slysavarnafélaginu Landsbjörg og SÁÁ þykja þetta vera samfélagslega ábyrgt; þykir þeim þetta verðugt fjölskylduefni? Skyldi virkilega enginn innanborðs í þessum stofnunum og samtökum hafa efasemdir um að sæmandi sé að styrkja þetta efni?

Og hvað með RÚV? Er kominn upp sami mórall þar og var fyrir hrun, þegar „sérfræðingar" voru daglega látnir spá í gróðavísitöluna í fréttatímum og þulir tilkynntu ábúðarmiklir hvað hefði farið upp og hvað niður í Kauphöllinni þann daginn. Tíu milljónir í augum hvers manns.

Okkur stuðningsmönnum fyrrnefndra samtaka og stofnana er ekki beinlínis gert auðvelt fyrir. Hvað þá þeim sem vilja veg RÚV sem mestan. Sú stofnun telur sig greinilega geta boðið upp á hvað sem er. Það held ég að sé misskilningur. Stjórnandinn, Þórhallur Gunnarsson, hefur margoft sýnt hvers hann er megnugur sem góður sjónvarpsmaður og þáttastjórnandi. Hvers vegna þetta hlutskipti nú? Og hvers vegna þetta hlutskipti fyrir RÚV?