Fara í efni

MEÐ SKÁTUM Á ÚLFLJÓTSVATNI

úlfljótsvatn 1
úlfljótsvatn 1

Í dag heimsótti ég skátamótið á Úlfljótsvatni í blíðskaparveðri. Mótinu lýkur um helgina og er gleðilegt hve gott veður skátarnir hafa fengið síðustu daga. Þegar mótið hófst fyrir viku var úrhellisrigning og reyndi þá á þjálfun og skipulag og án efa einnig góða skapið. Við sáum í dag að af góðu skapi er nóg á Úlfljótsvatni. Nú kom það hins vegar sjálfkrafa í logni og blíðu, næstum því 20 stiga hita.

Skátar hafa búið vel um sig á Úlfljótsvatni. Á svæðinu, sem þeir hafa til ráðstöfunar, hefur átt sér stað mikil uppbygging og er aðstaða öll til fyrirmyndar. Umhverfið býður upp á mikla möguleika, í  Úlfljótsvatni er góð silungsveiði og að auki skemmtilegt að fara út á vatnið á bátum sem þarna voru margir, Úlfljótsfjallið býður upp á fjallgöngur og gönguleiðir aðrar eru margar.

Með skátamótinu rís síðan heilt þorp og var greinliegt að allt var þar vel skipulagt og þaulhugsað.

Okkur var sagt að ákveðið hefði verið að halda alheimsmót skáta á Úlfljótsvatni árið 2017. Það mun kalla á mikla skipulagningu. En ef veðrið verður eins gott og það var í dag þá getur ekkert farið úrskeiðis!
ulfljotsvatn 2
Lengst til vinstri Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta, Margrét Tómasdóttir fyrrverandi skátahöfðingi, Björgvin Magnússon, skólastjóri Gilwell skólans til langs tíma og síðan við hjón, ég og Valgerður kona mín.