Fara í efni

MEÐ MÓTORHJÓLIÐ AÐ ÁHUGAMÁLI

Mótorhjol
Mótorhjol

Enginn vafi leikur á því að samfélagið vill taka höndum saman í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Það birtist í ýmsum myndum. Á Alþingi hafa þingmenn allra flokka lýst vilja til samstöðu í þessari baráttu og mér virðast fjölmiðlar einnig hafa vaknað til lífsins en sumir þeirra áttu til að birta „hetjuviðtöl" við stórhættulega brotamenn. Úr þessu hefur dregið, enda á maður sem meiðir annað fólk ekkert skylt við hetju.

Einn glæpahópanna, sem hefur verið hvað mest til umræðu, notar mótorhjól sem eitt ef sínum kennitáknum. En þótt þessir menn séu á mótorhjólum er ekki þar með sagt að allt mótorhjólafólk sé af sama sauðahúsi. Þvert á móti þá hefur fjöldi fólks ástríðufullan áhuga á mótorhjólum og hefur bundist samtökum við sína líka um þetta áhugamál. Þannig eru margir mótorhjólaklúbbar í landinu. Þeir sem fylla þeirra raðir vilja ekkert af hrottum og glæpamönnum vita og svíður sárt að vera ruglað saman við misindismenn.

Mér var sagt af einum slíkum klúbbi sem var að skipuleggja sumarferðina og panta gistingu fyrir hópinn. Þegar á daginn kom að um mótorhjólaklúbb var að ræða var dyrum lokað. Enga gistingu að fá!

Þetta kann að vera einangrað tilvik en segir okkur tvennt. Annars vegar er þetta vitninsburður um að fólk vill ekkert með þá hafa sem hugsanlega tengjast glæpum og er það vel. Hins vegar - og er það verra - getur sú hætta skapast að fólk sé haft fyrir rangri sök. Það má alls ekki gerast og er mikilvægt að á sama tíma og við gefum þeim rauða spjaldið sem meiða annað fólk, gætum við þess að setja ekki undir sama hattinn heiðarlegt fólk sem ekki má vamm sitt vita. Það á við um þorra þess fólks sem hefur mótorhjólið að áhugamáli.

Umfjöllun á Bylgjunni 7. mars (í Bítið):
http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP9840