Fara í efni

MEÐ JÁVÆÐRI STAÐFESTU HEFST ÞAÐ !


Birtist í Vinstrigrænum Sveitunga (Mosfellsbæ) 1.tbl. 3. árg.
Vinstrihreyfingin grænt framboð er ekki gömul stjórnmálahreyfing. En þrátt fyrir ungan aldur hefur VG látið talsvert að sér kveða í þjóðmálaumræðunni á undanförnum árum. Ég er sannfærður um að áhrif hinnar ungu hreyfingar hafi verið til góðs fyrir land og þjóð.
Ég hygg að flestir þekki áherslur okkar. Við viljum jöfnuð, umhverfisvernd, jafnrétti kynjanna og að Íslendingar haldi á lofti málstað friðar og réttlætis. Þessu höfum við hamrað á sem við frekast höfum getað - oft við andstreymi en í seinni tíð við vaxandi meðbyr. Það er gleðilegt.

Ekki leikur nokkur vafi á því að viðhorf eru að breytast í þjóðfélaginu. Fólk er í vaxandi mæli að hafna einhliða stóriðjustefnu með tilheyrandi virkjunum og stórfelldum náttúruspjöllum. Andspyrnan gegn stóriðjustefnunni er ekki einvörðungu vegna umhyggju fyrir umhverfinu heldur einnig vegna þess að sífellt fleiri sjá hvílíkt efnahagslegt glapræði stóriðjustefnan er. Sjálfur studdi ég stækkun álvers í Straumsvík árið 1995. Þá var ákveðið að stækka verksmiðjuna þar um helming. Frá þeim tíma hefur hins vegar mikið vatn runnið til sjávar. Þá nam heildarframleiðsla áls á Íslandi níutíu þúsund tonnum. Nú hafa hins vegar verið gefnar heimildir fyrir álframleiðslu upp á næstum eina milljón tonna og ef þau áform yrðu að veruleika sem nú eru á teikniborðinu samkvæmt heimildum ríkisstjórnarinnar, yrði framleiðsla áls á Íslandi ein og hálf milljón tonna!
Þetta væri hið mesta óráð enda gefa kannanir vísbendingu um að fólk í öllum stjórnmálaflokkum frábiður sér framhald á þessari stefnu sem myndi leiða til þenslu og jafnvel enn hærri vaxta en við þegar búum við. Það yrði mörgum heimilum og fyrirtækjum ofviða enda iðulega talað um ruðningsáhrif stóriðjunnar. Stóriðjan ryður nefnilega annarri atvinnustarfsemi burt. Þetta sér þjóðin og þegar kostirnir eru þeir að velja á milli álframleiðslu og annarrar atvinnustarfsemi, þá velja menn fjölbreytnina.

Enda þótt mikið sé gert til þess að sýna VG sem einstrengingslegan og jafnvel öfgafullan stjórnmálalflokk sjá nú flestir að stefna okkar er bæði varfærin og hófsöm.

Þegar við kynntum áform okkar um að bæta kjör láglaunafólks, öryrkja og aldraðra, tók fólk eftir því að við boðuðum ekki hækkun skatta frá því sem þeir hafa verið á undanförnum árum. Við boðuðum hins vegar breyttar áherslur í skattlagningu og ráðdeild við ráðstöfun opinberra fjármuna. Margt af því sem við boðuðum til dæmis innan heilbrigðisþjónustunnar teljum við einnig að sé til þess fallið að spara fjármuni þegar til lengri tíma er litið.

Tillögur okkar í velferðarmálum munu gagnast öllu samfélaginu ef þær verða að veruleika. Góð almannaþjónusta er nefnilega almannahagur. Hvað fátæktina varðar höfum við líka lagt áherslu á að við höfðum til samfélagsins alls. Íslendingar vilja nefnilega ekki una misrétti í samfélagi sínu. Ég hitti sjaldan fólk sem getur sætt sig við að nokkrum manni séu búin fátækrakjör. Þess vegna finnum við fyrir stuðningi í þjóðfélaginu almennt við þessar áherslur okkar, ekki aðeins frá tekjulitlu fólki heldur öllum þorra fólks.
Áherslur VG við stjórnvöl landsmálanna yrðu allri þjóðinni til góðs. Um það hef ég engar efasemdir. Við stefnum að vistvænu velferðarsamfélagi. Inn á þá braut hefur okkur ekki verið stýrt á undanförnum árum. En nú eru viðhorfin að breytast. Við höfum átt okkar þátt í því að breyta þeim. Með jákvæðri staðfestu hefur það tekist. Með því að gefast aldrei upp.

Íslenskt samfélag stendur að ýmsu leyti á tímamótum. Ætlum við að halda áfram inn á braut misskiptingar og misréttis, þar sem annars vegar er auðlegð og hins vegar örbirgð; þar sem annars vegar er einsleit stóriðjustefna, hins vegar margbretileiki; þar sem annars vegar er staðfastur stuðningur við stríðsstefnu, hins vegar sjálfstæð og friðsöm utanríkisstefna? Hvað ætlar fólk að velja? Um þetta snúast komandi alþingiskosningar.

Ég heiti á alla þá að leggjast á árarnar sem telja að stefnumál Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs eigi erindi inn á Alþingi og í Stjórnarráð Íslands. Ekkert gerist af sjálfu sér. En með jákvæðri staðfestu hefst það!