Fara í efni

MEÐ FANGA NÚMER 441

Mansoor Adayfi var fangi númer 441 í Guantanamó, pyntingarfangelsi Bandaríkjastjórnar, stærsta sinnar tegundar af svokölluðum "svartholum" utan lögsögu dómstóla, þar sem hægt var að beita fólk dýrslegu ofbeldi. Glæpalýðurinn sem leyfði þetta náði inn í Hvíta húsið í Washington og gerir enn. Okkur er sagt að allt sé þetta gert til að verja "vestræn gildi." Fangi númer 441 sat hlekkjaður í Guantanamó í 14 ár og var þá sleppt, ekki til heimalandsins - BNA leyfði það ekki - heldur ti Serbíu! Aldrei sannaðist neitt misjafnt á fanga 441 enda hafði hann verið fangelsaður´á upplognum forsendum.
Mér varð flökurt við að horfa á heimildarmynd Erlings Borgen um Guantanamó en Erling má sjá hér að neðan ræða við fanga númer 441.
Skyldi RÚV vilja sýna þá mynd?

Það er ofar mínum skilningi að Íslendingum finnist sæmandi að vera í bandalagi með stjórnvöldum sem standa fyrir öðru eins og gerist í Guantanamó og víðar þar sem sadistar fá frjálsar hendur - og ekki aðeins það heldur eru þeir hvattir til dáða. Það eitt að Vinstrihreyfingin grænt framboð skuli vera komin í klapplið með þessum ofbeldisöflum er þyngra en tárum taki því allt er þetta í boði NATÓ - varnarbandalagsins um frelsið - eða er það ekki rétt skilið að sá sé skilningurinn?
Myndin að ofan er tekin í morgun af okkur fanga 441 og Andrej Hunko þingmanni Linke, vinstri flokksins í Þýskalandi en allir erum við í Osló að taka þátt í viðburði sem tengist Wikileaks, Julian Assange og Guantanamó, en eitt af meintum "glæpum" Wikileaks var að upplýsa um ofbeldið í Guantanamó. Seinni myndin er af þeim Erling Borgen og Mansoor Adayfi.