Fara í efni

MARGBREYTILEIKI

Mgginn - sunnudags
Mgginn - sunnudags

Birtist í Sunnudagsmogga helgina 04/05.12.
Þegar 21. öldin var nýgengin í garð heimsótti aldraður maður skóla sem þá var nýtekinn til starfa í Reykjavík. Hinn gestkomandi maður var þá kominn eitthvað á tíræðisaldurinn. Hann hafði verið fræðslustjóri í Reykjavík drjúgan hluta af miðbiki aldarinnar sem leið. Eftir heimsóknina í skólann var hann spurður hvernig honum hefði litist á. Mjög vel sagði hinn aldni maður og ljómaði upp. En hvað þótti honum merkilegast? „Ætli það hafi ekki verið óreiðan." Síðan hugsaði hann sig ofurlítið um og bætti við: „Ætli það hafi ekki verið hin skipulega óreiða."

Maðurinn var Jónas B. Jónsson og frá þessu segir í snjallri minningargrein sem um hann var skrifuð.

Jónas B. Jónsson var maður margbreytileikans í skólastarfi. Ekki var nóg með að hann vildi að skólakerfið - hið opinbera skólakerfi  - byði upp á marga kosti heldur vildi hann að margbreytileikinn yrði svo mikill að hann tæki til allra þeirra einstaklinga sem sóttu skóla; hverjum og einum ætti að sinna sérstaklega út frá getu og þörfum í örvandi umhverfi, hinni „skipulegu óreiðu." Þess vegna beitti hann sér fyrir fjölbrautarskólum þar sem múrar milli verknáms og bóknáms voru brotnir niður og „blandaða bekki" vildi hann, fremur en að raða nemendum í bekkjardeildir eftir getu. Og þess vegna studdi hann „opna skólann" sem byggði á þessari hugmyndafræði. Á þessum tíma var unnið merkt brautryðjendastarf í þessu efni í Fossvogsskóla í Reykjavík undir farsælli stjórn Kára Arnórssonar skólastjóra. Allar efasemdir voru  kveðnar í kútinn, þetta væri hægt, gerði að vísu gríðarlegar kröfur til kennarans. En afbragðskennarar myndu rísa undir hlutverki sínu.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er pistill Hönnu Birnu Kristjánsdóttur frá síðustu helgi hér á þessum stað þar sem hún talar fyrir margbreytileika en gefur því undir fótinn að honum megi best ná með samkeppni og aðstoð markaðslögmálanna. Hugsunin er sú að peningar fylgi nemendum og skólarnir keppi síðan um þá sín í milli, óháð rekstrarformi. Þetta er hugmyndafræði einkavæðingarinnar. Nú er það svo að einkaskólar hafa lengi verið við lýði í grunnskólakerfinu á Íslandi og nefni ég þar, Ísaksskóla og Landakotsskóla. Spurning er hvort ganga eigi lengra í þessu efni, brjóta niður hverfisskólafyrirkomulagið eða setja hverfisskóla í einkarekstur einsog reynt var í Hafnarfirði fyrir nokkkrum árum. Horfið var frá því ráðslagi áður en yfir lauk.

Fjölmörg önnur dæmi en Fossvogsskóla má taka úr hinu almenna skólakerfi um hvernig margbreytileikinn fær auðveldlega þrifist án þess að markaðurinn sé látinn um hituna.
Í Menntaskólanum við Hamrahlíð, sem tók til starfa á síðari hluta 7. áratugar síðustu aldar var hefðbundin menntaskólakennsla brotin upp og sett á laggirnar svokallað áfangakerfi. Það var sniðið að þörfum einstaklingsins. Í stað þess að setja allt undir stöðlunar-straujárnið var boðið upp á valfrelsi um samsetningu námsins og námshraðanum gat hver og einn stjórnað. Öldungadeildin sem opnaði eldra fólki leið inn í skólann að nýju var einnig frávik frá hinu staðlaða umhverfi. Allt var þetta gerlegt undir regnhlíf „miðstýrðrar menntastefnu", sem Hanna Birna hefur litla trú á. Það er hægt að miðstýra í átt til fjölbreytni á sama hátt og hægt er að skipleggja óreiðu.

Skólakerfið býður núna upp á ótal möguleika fyrir einstaklinginn og er það að mínu mati gríðarlega mikilvægt að örva hvers kyns framþróun. Skólaumhverfið þarf að vera í stöðugri endurmótun. Inn í skólana þarf í sífellu að veita nýjum straumum og ferskum vindum.
Það er nauðsynlegt að taka þessa umræðu upp því nú heyrast þær raddir frá mörgum hægri mönnum að rétt sé að hefja uppstokkun á hinum opinberu kerfum með markaðsvæðingu í huga. Þar er horft til skólanna og heilbrigðiskerfisins.

Heilbrigðiskerfið íslenska er að uppistöðu til almannaþjónusta, sem ekki mismunar fólki þótt ég taki undir varnaðarorð Styrmis Gunnarssonar, fyrrum ritstjóra, í þessu blaði um síðustu helgi að gjaldtakan innan veggja sjúkrastofnana sé komin á ystu nöf. Heilbrigðiskerfið hér er blanda af almannaþjónustu og einkarekstri sem reynst hefur nokkuð farsæl. Breytt hlutföll í þeirri blöndu, einkarekstri í hag, mun gera kerfið dýrara, óhagkvæmara og ranglátara. Einkarekstur á algerum markaðsforsendum má að sjálfsögðu blómstra. En ef  meiningin er að láta okkur niðurgreiða hann þá kallar það á málefnalega umræðu.

Það er virðingarvert að segja kjósendum fyrir kosningar að ætlunin sé að hefja að nýju einkavæðingu almannaþjónustunnar í stað þess sem áður tíðkaðist að segja lítið fyrir kosningar um slík áform en hrinda þeim síðan umræðulaust í framkvæmd.