Fara í efni

MANNRÉTTINDIN HEIMA

Kópavogsblaðið lógó
Kópavogsblaðið lógó

Birtist í Kópavogsblaðinu 18.04.2013
Eleanore Roosevelt var merk kona og öflugur stjórnmálaforingi. Hún var formaður nefndarinnar sem lagði drög að Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 1948 og hefur auk þess jafnan verið litið á hana sem einn af frumkvöðlnunum að stofnun Sameinuðu þjóðanna. Hún var að sönnu í sterkri stöðu sem forsetafrú Bandaríkjanna, gift Franklín D. Roosevelt eina Bandaríkjaforsetanum sem kosinn hefur verið þrisvar sinnum, enda aðstæður sérstakar á tímum Heimsstyrjaldarinnar síðari.

Franklin D. Roosevelt var forseti 1933 til dauðadags síns árið 1945. Eftir hans dag hélt Eleanore á mannréttindakyndlinum áfram á lofti og lét mjög að sér kveða.
Margt viturlegt er haft eftir þessari merkiskonu. Og sumt er til að læra af því. Mér verður hugsað til þeirra ummæla hennar að mannréttindi megi aldrei aðeins verða viðfangsefni í fjarlægð, útí í hinum stóra heimi. Hún orðaði þetta á þennan veg: „Við eigum að færa mannréttindin til smárra staða, nærri heimahögunum - svo nærri okkur og svo smárra að þeir verði aldrei greindir á neinu heimskorti."

Þetta eigum við alltaf að hafa hugfast. Mannréttindi eru okkar allra og við megum aldrei láta staðar numið í baráttunni. Verkið verður ekki fullunnið og við þurfum stöðugt að minna hvert annað á hve mikilvægt það er að umvefja alla þá sem á einhvern hátt eiga undir högg að sækja skilningi og stuðningi. Takist okkur að þoka málum aðeins örlítið áfram heima fyrir, þannig að mannréttindi séu betur virt en áður, þá er til nokkurs unnið.
Sannast sagna held ég að á síðustu árum höfum við þokast áfram.

Sem dæmi má nefna að stjórnvöld hafa sett aukinn kraft í baráttu gegn einelti og staðið fyrir vitundarvakningu um kynferðisofbeldi. Lagaumgjörðin um kynferðisbrot hefur verið bætt en mikilvægasta verkefnið núna er að við séum í stakk búin til að fylgja lögunum eftir. Til þess þarf kerfið að vera nægilega öflugt og þekking og þjálfun allra sem að málum koma að vera með besta móti. Að þessu höfum við reynt að vinna, m.a. með því að efla þekkingu og umræðu innan skóla, lögreglu og réttarkerfis. Þessu starfi þarf að halda áfram og það er hafið yfir allar pólitískar flokkslínur.

Ég er sannfærður um að við erum á réttri leið.